Mál togarans Júlíusar Geir­munds­sonar og á­kvörðun skip­stjóra út­gerðar hans um að sigla togaranum ekki í land eftir að veikindi komu upp um borð er ekki á borði lög­reglunnar á Vest­fjörðum. Al­manna­varnir skoða málið ekki sér­stak­lega og vísa á lögregluem­bættið fyrir vestan, sem segir að málið verði ekki skoðað sérstaklega. For­maður Verka­lýðs­fé­lags Vest­firðinga og for­seti Al­þýðu­sam­bands Ís­lands (ASÍ) hafa krafist þess að yfir­völd rann­saki málið og dragi út­gerðina til á­byrgðar fyrir að stofna heilsu sjó­manna í hættu.

Í togaranum kom upp kórónu­veiru­hóp­smit en 22 af 25 skip­verjum á­hafnarinnar sýktust af veirunni. Þrettán þeirra eru nú í ein­angrun en hinir sem smituðust hafa myndað mót­efni gegn veirunni enda var sjó­ferð togarans löng – heilar þrjár vikur. Ein­hverjir þeirra höfðu byrjað að sýna ein­kenni snemma í túrnum og hefur á­kvörðun út­gerðarinnar um að sigla skipinu ekki strax til hafnar þegar sjó­menn fóru að veikjast verið harð­lega gagn­rýnd. Sjó­manna­sam­band Ís­lands hélt því fram í til­kynningu í gær að út­gerðin hefði hafnað í­trekuðum beiðnum um­dæmis­læknis sótt­varna á Vest­fjörðum um að skipið kæmi í land.

Brot á sjómannalögum


Finn­bogi Sveinbjörnsson, for­maður Verka­lýðs­fé­lags Vest­firðinga, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að með á­kvörðun sinni hafi út­gerðin farið á svig við sjó­manna­lög. „Það er mjög skýrt í þeim hvernig skip­stjóri skal haga sér ef það kemur upp far­sótt um borð. Þá á hann að halda til hafnar, það er alveg skýrt,“ segir Finn­bogi.

Hann segir að lög­reglan hljóti að rann­saka málið. Sjálf hafa verka­lýðs­fé­lögin engar rann­sóknar­heimildir sem slíkar en að­spurður úti­lokar hann ekki að málið verði kært. „Við verðum bara að sjá hvernig málinu vindur fram, það er of snemmt að segja til um það á þessum tíma­punkti. En komi það á daginn að menn beri al­var­lega heilsu­bresti til fram­búðar vegna smitsins þá hlýtur stéttar­fé­lagið að stíga inn og sjá hvaða leiðir eru færar.“

Sami hljómur er í for­seta ASÍ, sem segir í pistli sínum í dag: „Krafan er aug­ljós­lega að þar til bær yfir­völd rann­saki hóp­smitið um borð í Júlíusi Geir­munds­syni og eftir at­vikum dragi út­gerðina til á­byrgðar fyrir að stofna heilsu sjó­manna í hættu.“

Málið ekki tekið fyrir sérstaklega


Þegar Frétta­blaðið leitaði til al­manna­varna til að sjá hvort málið yrði rann­sakað sér­stak­lega innan em­bættisins sagði Víðir Reynis­son yfir­lög­reglu­þjónn að málið hafi ekki komið inn á hans borð. „Ef það verður rann­sakað þá er það lög­reglan fyrir vestan,“ segir hann. „Al­manna­varnir hafa ekki rann­sóknar­heimildir.“

Víðir segir að málið verði ekki skoðað af almannavörnum enda hafi þær ekki rannsóknarheimildir.
Fréttablaðið/Eyþór

Karl Ingi Vil­bergs­son, lög­reglu­stjóri á Vest­fjörðum, segir málið þá heldur ekki á sínu borði. Hann segir það ekki hafa verið rætt innan em­bættisins hvort það ætti að fara í sjálf­stæða rann­sókn á á­kvörðun út­gerðarinnar. „Þetta er spurning um það hve­nær skip á að fara í land vegna veikinda um borð og spurning hvort þarna hafi sjó­manna­lög verið brotin,“ segir hann. Sú spurning sé í grunninn ó­tengd því hvort heims­far­aldur geisi eða ekki.

Að­spurður segir hann að málið yrði tekið til rann­sóknar ef kæra kæmi á borð lög­reglu. „Það er með þetta eins og hvað annað, við könnum hvort að brot hafi verið framið og hvort það séu þá refsi­heimildir fyrir því. En ég er ekki að segja að við ætlum að taka þetta mál sér­stak­lega fyrir frekar en neitt annað.“