Angjelin Mark Sterkaj játaði einn að hafa myrt Armando Beqirai í Rauðagerði 13. febrúar síðastliðinn, við þingfestingu Rauðagerðismálsins í gær.

Fjögur eru ákærð í málinu fyrir brot gegn 211. grein almennra hegningarlaga sem fjallar um manndráp. Í ákæru er byggt á því að um samverknað hafi verið að ræða.

Er Murat Selivrada ákærður fyrir að hafa sýnt meðákærðu Claudiu Sofiu Coelho Carvalho tvo bíla sem tilheyrðu Armando og gefa henni fyrirmæli um að fylgjast með þeim þar sem þeir stóðu við Rauðarárstíg og senda skilaboð til annars meðákærða þegar hreyfing yrði á annarri hvorri þeirra.

Claudiu Sofiu er gefið að sök að hafa, að beiðni Murat, fylgst með fyrrnefndum bílum og sent umbeðin skilaboð gegnum Mess­enger þegar Armando ók öðrum bílnum frá Rauðarárstíg.

Shpetim Qerimi er gefið að sök að hafa ekið með Angjelin að Rauðagerði í Reykjavík rétt fyrir miðnætti nóttina sem Armando var drepinn og aftur af vettvangi eftir morðið. Er atburðarásinni í Rauðagerði lýst þannig í ákæru að Shpetim og Arngjelin hafi stöðvað sinn bíl nálægt horni Rauðagerðis og Borgargerðis. Þegar bíl Armandos var ekið að heimili hans að Rauðagerði 28 hafi Shpetim ekið á eftir honum, hleypt Angjelin út úr bílnum við hús númer 28 og ekið svo áfram nokkrar húsalengdir, snúið bílnum við þar og beðið eftir merki frá Angjelin um að sækja sig. Hann hafi þá ekið austur Rauðagerði, tekið Angjelin upp í bílinn við Borgargerði og þeir ekið út úr bænum og alla leið í Varmahlíð í Skagafirði með viðkomu í Kollafirði þar sem Angjelin er sagður hafa hent skotvopni í sjóinn.

Armando hafi látist af skotáverkum á heila og brjóst

Í ákæru er Angjelin gefið að sök að hafa ekið með Shpetim að Rauðagerði eins og fyrr segir. Hann hafi farið úr bifreiðinni við hús númer 28 og falið sig við bílskúr. Armando hafi ekið að húsinu og lagt bíl sínum inni í bílskúrnum. Þegar hann hafi komið út úr bílskúrnum hafi Angjelin skotið hann níu skotum í líkama og höfuð með 22 kalíbera Sig Sauer skammbyssu. Armando hafi látist af þeim skotáverkum sem hann hlaut á heila og brjóst. Í kjölfarið hafi Angjelin hlaupið út Rauðagerði, gefið Shpetim merki og farið aftur upp í bíl hans við Borgargerði.

Murat, Glaudia og Shpetim neituðu öll sök við þingfestinguna í gær. Angjelin einn játaði sök og sagðist hafa verið einn að verki. Í viðtali við Fréttablaðið í apríl sagði Angjelin ástæðuna fyrir morðinu persónulega. Málið varðaði hann einan og gengi sem hinn látni hefði tilheyrt.

Fjórtán höfðu um tíma stöðu sakbornings

Um tíma höfðu fjórtán einstaklingar stöðu sakbornings í málinu. Mál nokkurra þeirra voru felld niður á síðari stigum rannsóknar hjá lögreglu en mál um það bil helmings sakborninga send héraðssaksóknara. Þeirra á meðal mál eins Íslendings sem sætti bæði gæsluvarðhaldi og farbanni meðan á rannsókn málsins stóð. Héraðssaksóknari ákvað að ákæra aðeins þá fjóra sem getið er um í ákæru og fella niður mál annarra.

Angjelin er sá eini sem sætir enn gæsluvarðhaldi í málinu. Shpetim er í afplánun og bæði Claudia og Murat eru í farbanni.

Aðalmeðferð málsins hefst 13. september. Dómarinn Guðjón St. Marteinsson gerir ráð fyrir að hún geti staðið í heila viku en ætla má að sönnunarfærslan verði nokkuð flókin. Fjöldi vitna mun gefa skýrslu og gera þarf grein fyrir miklu magni gagna sem aflað hefur verið í málinu. Þá þarf að túlka allt sem fram fer, en sakborningarnir eru allir ættaðir frá Albaníu.