Samkomulag hefur náðst milli Félags sjúkraþjálfara (FS) og Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) um að fela gerðardómi að úrskurða um lagalega óvissu um gildistíma rammasamnings.

Fram kemur í tilkynningu frá FS að í samkomulaginu felist að sjúkraþjálfarar starfi eftir samningum á meðan gerðardómsmeðferð stendur. 

Frá og með morgundeginum, 14. nóvember, verða sjúkraþjálfarar því aftur á tímabundnum samningi sem feli í sér eðlileg rafræn samskipti við SÍ.

„Það er mikilvægt fyrir okkur sjúkraþjálfara að SÍ hefur fallist á að jafnhliða verða hafnar viðræður um innkaupaaðferðir og leiðir til að koma á samningum um þjónustu sjúkraþjálfara”, segir Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara, í tilkynningu félagsins.