Kólumbíska söngkonan Shakira hefur verið til rannsóknar hjá spænskum skattyfirvöldum síðustu þrjú árin en talið er að hún hafi vantalið fram 14,5 milljónir evra í skattframtölum sínum.

Shakira gæti átt yfir höfði sér fangelsisdóm verði hún dæmd sek um ásakanir skattyfirvalda.

Þessi vinsæla söngkona hefur verið í samningaviðræðum við skattyfirvöld á Spáni og gæti náð að semja sig frá réttarhöldum samkvæmt frétt El País um málið.

Kæra skattyfirvalda er komin inn á borð saksóknara sem ákveður á næstu dögum hvort málið fari fyrir spænska dómstóla. Saksóknaraembættið telur að nægar sannanir séu fyrir hendi til þess að sýna fram á að Shakira hafi falið tekjur sínar í gegnum flókinn vef fyrirtækja í skattaparadísum.

Þannig hafi Shakira hætt að borga skatta á Spáni á árunum 2012 til 2014 þrátt fyrir að henni hafi borið skylda til þess þar sem hún var með lögheimili á spænskri grundu.

Shakira heldur því fram að á fyrrgreindu tímabili hafi hún verið búsett á Bahamaeyjum og af þeim sökum hafi hún ekki átt að borga skatta í spænskan ríkissjóð.