Angjelin Stark Merka­j sagðist í gær í Héraðs­dómi Reykja­víkur hafa skotið Armando Beqirai í sjálfs­vörn. Hann hefði ætlað að ræða við hann þann 13. febrúar síðast­liðinn en ekki drepa hann. Fjöru­tíu manns munu bera vitni í málinu sem hófst í gær og standa skýrslu­tökur yfir í fjóra daga.

Fjórir hafa stöðu sak­bornings. Áður­nefndur Angjelin sem hefur viður­kennt að hafa tekið í gikkinn, unnusta hans Claudia Sofia Coel­ho Car­va­hlo, Murat Seli­vrada og Sheptim Qu­erimi. Angjelin sagðist hafa verið einn að verki og hin þrjú neita sök. Báru þau öll vitni í gær.

Angjelin sagði málið hafa orðið til vegna á­greinings við Anton Kristin Þórarins­son, eða „Tona“ eins og hann væri kallaður, um 50 milljónir króna.

Angjelin sagði að málið snerist ekki bara um einn mann heldur allan undir­heiminn.

Armando og aðrir hefðu beðið Angjelin að taka börn Antons sem gísla en þegar hann neitaði hefði Armando hótað bæði að láta senda hann úr landi og að skera son hans á háls. „Þá á­kvað ég að kaupa byssu,“ sagði Angjelin en einnig að hann hefði viljað halda sátta­fund. Claudia hefði látið Angjelin vita þegar Armando var heima og Sphetim hefði beðið í bílnum meðan Angjelin fór að hitta Armando.

Sagðist hann hafa séð Armando ná í hagla­byssu úr skottinu á bílnum sínum og setja hana upp í hillu í bílskúrnum. „Þá byrja ég að setja upp hljóðdeyfi og hann sér það,“ sagði Angjelin og hélt því fram að Armando hefði hótað sér. „Armando sagðist ætla að drepa mig og börn mín og ráðast á mig.

Þarna tók ég byssuna upp um leið og hann ætlaði að ráðast á mig. Þá tók ég byssuna upp og byrjaði að skjóta.“

Hefði hann þá veifað til Sphetim að koma með bílinn, farið upp í bílinn og sagt honum að keyra burt. Claudia, sem er sökuð um að hafa vaktað heimili hins myrta og að f lytja morðvopnið, neitaði að hafa vitað hvað væri í töskunni sem byssan var í. Hún hefði hins vegar vitað af ágreiningnum og tengslum mannanna.

Hún hefði verið að fylgjast með ákveðnum bíl fyrir utan heimili hans þennan dag og átti að láta Angjelin vita þegar bíllinn væri farinn. Átti hún að senda leyniskilaboðin „Hæ sexý“ til Angjelin sem merki um að Armando væri einn.

Eftir að Claudia sendi skilaboðin til Angjelin segist hún hafa yfirgefið svæðið og farið beint heim til Angjelin og því ekki orðið vitni að skotárásinni. Hafi þau Angjelin hins vegar keyrt norður í Varmahlíð um nóttina og lesið um morðið í fréttum daginn eftir.

Hún hafi þá séð mann koma með peningasendingu til Angjelin daginn eftir. „Ég var svo hrædd og vissi ekki hvað ég ætti að gera.Eina sem ég hugsaði um var dóttir mín. Ég vissi að hann væri búinn að drepa manneskju og ég var hrædd um að hann myndi gera mér eitthvað,“ sagði Claudia.