Mál Sarwary-feðganna, sem ítarlega hefur verið fjallað um á Fréttablaðinu, fellur samkvæmt upplýsingum frá lögmanni feðganna, Magnúsi D. Norðhdahl, undir breytta reglugerð sem dómsmálaráðherra samþykkti í dag.

Samkvæmt henni er Út­lendinga­stofnun nú heimilt til að taka til efnis­legrar með­ferðar mál barna sem hlotið hafa vernd í öðru ríki, ef það eru meira en tíu mánuðir liðnir frá því að um­sókn þeirra barst ís­lenskum stjórn­völdum.

„Ég var að heyra þetta núna. Ég er þakk­látur fólkinu sem stóð með mér á mót­mælunum í gær, fólkinu sem hefur staðið með mér í gegnum þetta og ís­lenskum yfir­völdum að skilja aðstæður mínar og drengjanna minna tveggja,“ segir Asa­dullah Sarwary í sam­tali við Frétta­blaðið í kvöld.

Asadullah segist einnig þakklátur öllum þeim sem hafa vakið athygli á máli hans. Hann og drengirnir, Ali og Madhi voru viðstaddir mót­mælin sem fóru fram í gær og segir Asadullah að það hafi verið gott að sjá stuðning fólks í verki.

„Þeir voru mjög glaðir þegar ég sagði þeim að allir sem væru við­staddir væru þar til að styðja þá og vildu halda þeim á Ís­landi,“ segir Asa­dullah.

Eins og greint hefur verið frá áður þá átti að vísa feðgunum úr landi síðasta mánu­dag, en vegna þess að annar drengjanna fékk tauga­á­fall vegna kvíða var hætt við brott­vísun. Hann hefur í vikunni fengið bæði að­stoð sál­fræðings og iðju­þjálfa á Barna­spítalanum, sem að­stoða hann í gegnum þunglyndi og kvíða og við að læra að slaka á. Þá hefur hann fengið svefn­lyf sem Asa­dullah segir að hjálpi einnig.

Mál Safari fjölskyldunnar fellur einnig undir reglugerðina

Magnús segir að mál Safari-fjölskyldunnar muni einnig falla undir hans, næsta miðvikudag.

„Þær endur­upp­töku­beiðnir sem liggja inni núna á grund­velli heilsu­fars verða dregnar til baka og ég sendi inn nýjar. Sarwary-feðgarnir upp­fylla þetta strax og Safari-fjöl­skyldan á mið­viku­daginn,“ segir Magnús í sam­tali við Frétta­blaðið í kvöld. Hann segir að hann hafi þær upp­lýsingar frá Út­lendinga­stofnun að þeim verði ekki vísað úr landi eins og staðan er í dag.