Á­kvörðun Donalds Trumps Banda­ríkja­for­seta um að milda dóm yfir vini sínum og fyrrum ráð­gjafa, Roger Stone, hefur vakið mikla reiði í Banda­ríkjunum. Stone átti að hefja þriggja ára og fjögurra mánaða fangelsis­dóm sinn næsta þriðju­dag en Trump til­kynnti í gær að hann hefði fellt refsinguna niður.

Trump hefur sætt mikilli gagn­rýni í dag vegna á­kvörðunarinnar bæði frá demó­krötum en einnig hátt­settum með­limum repúblikana­flokksins. The Guar­dian fjallaði um málið í dag.

Adam Schiff, þing­maður demó­krata og for­maður njósna­nefndar Banda­ríkja­þings, sem Stone var fundinn sekur um að hafa logið að, hefur sagt á­kvörðun Trumps um að milda dóminn „skað­lega fyrir réttar­kerfi Banda­ríkjanna“.

Mitt Rom­n­ey, öldunga­deildar­þing­maður repúblikana, kallaði á­kvörðunina þá „for­dæma­lausa, sögu­lega spillingu“.

Mitt Romney, öldungadeildarþingmaður repúblikana.
Fréttablaðið/Getty

Sekur um sjö glæpi

Roger Stone var fyrrum ráð­gjafi Trumps í kosninga­bar­áttu hans árið 2016. Hann var fundinn sekur um það í nóvember í fyrra að hindra fram­gang rétt­vísinnar og um að hafa logið í vitnis­burði sínum fyrir Banda­ríkja­þingi við rann­sókn þess á á­hrifum Rússa á for­seta­kosningarnar.

Trump sagði í gær að Stone væri fórnar­lamb „ó­lög­legra norna­veiða“. Pistla­höfundur Was­hington Post, Brian Klaas, brást við þessum um­mælum for­setans á Twitter í dag: „Þetta er al­ger lygi. Roger Stone framdi glæpi sem er búið að upp­lýsa og hefur ekki enn verið mót­mælt.“

„Þetta er það sem harð­stjórar gera: beita lögunum eins og vopni til að ráðast gegn pólitískum and­stæðingum sínum og vernda hlið­holla fé­laga sína. Í dag er skammar­legur og svartur dagur fyrir banda­rískt lýð­ræði,“ sagði hann.

Stone var fundinn sekur um sjö glæpi í fyrra; þar á meðal að hafa logið að Banda­ríkja­þingi og að hafa reynt að hafa á­hrif á önnur vitni í rann­sókninni um að­komu Rússa að kosninga­bar­áttu Trumps. Stone gerði aldrei til­raun til að út­skýra mál sitt fyrir dómara og þá kölluðu lög­fræðingar hans ekki neitt vitni í dóm­sal við vörn hans.

Sérlög fyrir vini Trumps

Í til­kynningu frá Hvíta húsinu í gær segir: „Roger Stone hefur þegar mátt líða miklar kvalir. Komið var fram við hann á mjög ó­sann­gjarnan hátt, líkt og marga aðra í þessu máli. Roger Stone er nú frjáls maður!“.

Mildun Trumps á refsingunni felur ekki í sér að Stone verði sak­laus af glæpum sínum en hann mun ekki þurfa að sitja inni fyrir þá. Sem fyrr segir átti af­plánun hans á 40 mánaða fangelsis­vistinni að hefjast næsta þriðju­dag.

„Ef þú lýgur fyrir for­setann, ef þú hjálpar honum að hylma yfir mál... þá mun Donald Trump vernda þig. Það eru skila­boðin,“ sagði Adam Schiff, þing­maður demó­krata um málið í dag. Hann sagði að öllum væri nú ljóst að það væru tvenns­konar lög í Banda­ríkjunum; ein fyrir fé­laga Donalds Trumps og önnur fyrir alla hina.“

Adam Schiff, þingmaður demókrata og formaður njósnanefndar Bandaríkjaþings.
Fréttablaðið/Getty