Hæstiréttur hefur samþykkt málskotsbeiðni ríkissaksóknara í máli Þrastar Emilssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra ADHD-samtakanna, sem dæmdur var í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi í Landsrétti fyrr á þessu ári.

Þröstur var sakfelldur fyrir að hafa dregið sér rúmar sjö milljónir króna úr sjóðum félagsins og fyrir umboðssvik með því að hafa notað kreditkort samtakanna í eigin þágu fyrir rúmar tvær milljónir. Hann var hins vegar sýknaður af ákæru um að hafa nýtt ávinning af brotunum og gerst með því sekur um peningaþvætti.

Í dómi Landsréttar var byggt á því að þegar brot gegn ákvæði um peningaþvætti félli saman við frumbrot, eins og fjárdrátt og umboðssvik, og ekkert lægi fyrir um viðbótarathafnir ákærða teldist frumbrotið hafa tæmt sökina. Því mætti ekki refsa fyrir það sérstaklega.

Ákæruvaldið vísaði til breytinga sem gerðar hafa verið á peningaþvættisákvæðinu sem gera þvætti á ávinningi eigin brota refsinæmt. Á þetta reyni nú í fyrsta sinn en dómur Landsréttar sé óskýr um hvenær og hvernig beita megi ákvæðunum saman. Hæstiréttur féllst á þessi rök og telur úrlausn um málið hafa verulega almenna þýðingu.