Synjun Þjóðskrár á beiðni Öldu Vigdísar Skarphéðinsdóttur, um breytta nafn- og kynskráningu, kom flatt upp á aðila í starfshópi frumvarps um kynrænt sjálfræði. Alda Vigdís hefur lagt fram kæru á hendur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu vegna takmarkana Þjóðskrár Íslands á breyttri kynskráningu.

Fréttablaðið ræddi við Öldu í síðustu viku en hún sagði málið hafa áhrif á heilsu hennar. Hún hafi reynt að breyta kynskráningu sinni í Þjóðskrá en hafi fengið þau svör um að svo væri ekki hægt vegna búsetu hennar í Þýskalandi. Vitnar Þjóðskrá í svokallaða heimkynnisreglu, sem kemur hvergi fram í lögum um kynrænt sjálfræði sem samþykkt var á Alþingi í sumar.

„Ég á erfitt með að tjá mig um það hvernig mér líður yfir þessu öllu en auðvitað líður mér ekki vel. Eins og er, þá hef ég þurft að gíra mig upp til að hugsa rökrænt um þetta allt, gera mitt besta til að vinna í málinu og hef nánast verið á sjálfstýringu en ég veit að það mun ekki endast lengi,“ sagði Alda.

Birkir Helgi Stefánsson, sem var í starfshópi við gerð frumvarpsins, segir að orðalagið í lögunum sé sérstaklega ætlað að sjá til þess að allir, óháð lögheimili, geti breytt um skráningu kyns.

„Hópurinn vann að því að allir einstaklingar sem skráðir eru í þjóðskrá hafi rétt á því að breyta þeirri skráningu sinni, óháð lögheimilisskráningu. Í fyrstu drögum okkar að frumvarpinu var sú heimild bundin við lögheimilisskráningu en það var sameiginlegur vilji allra í hópsins að fjarlægja þá klausu sem var gert í því skyni að koma í veg fyrir vandræði sem þessi. Það tókst greinilega ekki betur en svo, við höfðum ekki hugmyndaflug í svona útspil frá Þjóðskrá,“ segir Birkir Helgi í samtali við Fréttablaðið.

Fjarlægðu skilyrði um lögheimili

Á fundi starfshópsins árið 2016 var sérstaklega rætt um að binda réttinn við íslenska ríkisborgara, óháð búsetu. Í athugasemd lögfræðings kemur fram að hægt sé að orða ákvæðið þannig að rétturinn til að breyta skráningu nái til íslenskra ríkisborgara erlendis en það myndi einungis tryggja rétt einstaklings til að breyta skráningu sinni í þjóðskrá en ekki almannaskráningu í því ríki sem viðkomandi býr í.

Var það niðurstaða starfshópsins að orða ákvæðið á þann hátt og fjarlægja skilyrði um lögheimili.

Þjóðskrá er þó á öðru máli, en í samskiptum við Öldu kemur fram að hún þyrfti fyrst að breyta skráningu sinni í Þýskalandi. Að sögn Öldu er ekki er gert ráð fyrir að erlendir ríkisborgarar í Þýskalandi fái leiðrétta skráningu á kyni og nafni.

„Ég hef lítinn skilning á því hvernig hægt er að ætlast til þess að erlent stjórnvald eða dómstóll hafi nokkuð um það að segja hvaða nafn og kyn sé skráð í íslensk vegabréf,“ sagði Alda.

Transgender Europe (TGEU) fór einnig yfir frumvarpsdrögin og tóku undir með starfshópi um að rétt væri að breyta orðalagi í frumvarpinu svo rétturinn næði til allra íslenska ríkisborgara, hvort sem þeir væru á Íslandi eða erlendis.

Orðalag í lögum og frumvarpi eru að mestu óbreytt og kemur hvergi fram að íslenskir ríkisborgarar verði að búa hérlendis til að fá samþykkta breytta kynskráningu.