Hæstiréttur mun ekki taka fyrir mál móður sem var sakfelld í Landsrétti í nóvember á síðasta ári fyrir ofbeldi gagnvart þremur af fjórum dætrum sínum.
Landsréttur staðfesti jafnframt á síðasta ári að foreldrar barnanna yrðu sviptir forsjá yfir börnunum.
Brotin áttu sér fyrst og fremst stað á heimili fjölskyldunnar í Reykjanesbæ frá því í maí 2018 til ágúst 2020 en faðirinn hlaut tveggja ára fangelsi og móðirin sex mánaða skilorðsbundin dóm, en þau voru hjón þegar brotin voru framin.
Móðirin sóttist eftir því að málið yrði tekið fyrir í Hæstarétti. Hún sagði að sakfelling sín í héraði og í Landsrétti byggði á takmörkuðum sönnunargögnum.
Auk þess sagði hún rangt að heimfæra brotin til fyrstu málsgreinar 218. greinar b. almennra hegningarlaga, líkt og gert var í Landsrétti en ekki í héraði. Sú grein varðar ofbeldi gagnvart nánum ættingjum.
„Hver sem endurtekið eða á alvarlegan hátt ógnar lífi, heilsu eða velferð núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, niðja síns eða niðja núverandi eða fyrrverandi maka síns eða sambúðaraðila, áa síns, eða annarra sem búa með honum á heimili eða eru í hans umsjá, með ofbeldi, hótunum, frelsissviptingu, nauðung eða á annan hátt, skal sæta fangelsi allt að 6 árum.“ segir í umræddri grein.
Hæstiréttur mat það svo að af gögnum málsins væri ekki að sjá að málið hefði verulega almenna þýðingu, né væri það mjög mikilvægt af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar.
Þá yrði sönnunargildi munnlegs framburðar, en það verður ekki endurskoðað í Hæstarétti og því þótti ljóst að áfrýjun til Hæstaréttar myndi ekki breyta úrlausn dómsins.