Mál Magnúsar Davíðs Norð­dahl, fram­bjóðanda Pírata í Norð­vestur­kjör­dæmi í síðustu Al­þingis­kosningum, er komið í gegnum fyrstu síu Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu.

Magnús greinir frá þessu á Face­book síðu sinni. Þar greinir hann jafn­framt frá því að málið sé flokkað sem svo­kallað „first impact case.“ Það þýðir að málið teljist mikil­vægt og að það muni fá for­gangs­með­ferð hjá Mann­réttinda­dóm­stólnum.

Magnús kærði í nóvember síðast­liðnum á­kvörðun Al­þingis um að stað­festa niður­stöður síðari talningar í Norð­vestur­kjör­dæmi til dóm­stólsins. Áður hafði Magnús kært málið til Al­þingis í byrjun októ­ber og farið fram á ó­gildingu kosninganna í kjör­dæminu.

Brestir urðu við talningu í Norð­vestur­kjör­dæmi og var endur­talið. Hring­ekja jöfnunar­manna fór af stað þar sem sumir duttu út en aðrir fengu þing­sæti sem þeir höfðu ekki haft eftir fyrri talningu. Mikilli rann­sókn undir­búnings­kjör­nefndar Al­þingis var hrundið af stað sem tafði myndun ríkis­stjórnar.

„Fékk þær góðu fréttir í morgun að mál mitt hjá Mann­réttinda­dóm­stól Evrópu, vegna á­galla á fram­kvæmd síðustu al­þingis­kosninga, hefði komist í gegnum fyrstu síu dóm­stólsins og verið skil­greint sem "first impact case". Á­kaf­lega mikil­vægur á­fangi í höfn,“ skrifar Magnús.

„Upp­spretta valdsins í okkar sam­fé­lagi er í þing­kosningum. Lög­gjafar­valdið velur síðan hverjir fara með fram­kvæmdar­vald sem síðan skipar þá sem fara með dóms­vald. Heilindi kerfisins í heild eru undir í þessu dóms­máli.“