Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi sendiherra og ráðherra, krefst þess að ákæru gegn honum um kynferðislega áreitni verði vísað frá dómi á þeim grundvelli að íslenskir dómstólar hafi ekki lögsögu í málinu. Þetta kom fram við þingfestingu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.

„Hér reynir á hina svonefndu þegnreglu sem varðar lögsögu ríkja. Megininntak hennar er að ríkið getur almennt tekið lögsögu yfir íslenskum ríkisborgurum, eða þeim sem búsettir eru á Íslandi, vegna brota sem framin eru erlendis, ef brotið er jafnframt refsivert þar,“ segir dr. Bjarni Már Magnússon, prófessor við lagadeild HR. Hann vísar til dómafordæmis Hæstaréttar í máli Íslendings sem sakfelldur var fyrir kynferðisbrot í Svíþjóð. Dómurinn féllst ekki á ómerkingu héraðsdóms, þar sem óumdeilt var að brotið var einnig refsivert samkvæmt sænskum hegningarlögum.

Bjarni tekur fram að um heimild, en ekki skyldu, ríkisins sé að ræða en reglan byggi á þeirri hugmynd að þar sem einstaklingar eigi rétt á vernd frá heimaríki sínu sé einstaklingurinn jafnframt undir lögsögu ríkisins hvert sem hann fer.

Mál Jóns Baldvins varðar meinta kynferðislega áreitni sem á að hafa átt sér stað á Spáni árið 2018 og búast má við því að reifa þurfi spænska refsilöggjöf í málflutningi um frávísunarkröfuna sem fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 30. október næstkomandi.