Ríkissaksóknari hefur tekið ákvörðun um að áfrýja sýknudómi yfir Jóni Baldvin Hannibalssyni, fyrrverandi sendiherra og ráðherra, til Landsréttar.

Í síðasta mánuði sýknaði Héraðsdómur Reykjavíkur Jón Baldvin af ákæru fyrir kynferðislega áreitni á Spáni sumarið 2018.

Í ákæru var hann sakaður um að hafa strokið Carmen Jóhannsdóttur „utan klæða upp og niður eftir rassi“ á heimili hans og Bryndísar Schram í Andalúsíu sumarið 2018.

Jón Baldvin var sýknaður vegna sönnunarskorts, en eindregin neitun hans var studd framburði tveggja vitna.

Vitnisburðir Carmenar og móður hennar séu hins vegar „um sumt“ ósamrýmanlegir. Þá fái vitnisburður Carmenar ekki þá stoð sem þarf af öðrum vitnisburði eða gögnum málsins svo að hægt sé að nota hann til grundvallar niðurstöðu í málinu, gegn neitun Jóns Baldvins.