Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ákveðið að taka til efnismeðferðar nýtt mál Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar. Málið, sem kært var til dómstólsins 17. nóvember 2019, varðar frávísun Hæstaréttar á máli þeirra sem endurupptökunefnd hafði þegar fallist á að taka skyldi upp að nýju.

Málið varðar skattalagabrot sem Jón Ásgeir, Tryggvi og fleiri voru dæmd fyrir árin 2007 og 2012. Fyrst til að greiða sektir og síðar til refsingar, sektargreiðslna og sakarkostnaðar.

Jón Ásgeir og Tryggvi vísuðu málinu fyrst til Mannréttindadómstóls Evrópu á þeim grundvelli að brotið hefði verið gegn ákvæði MDE um rétt til að þurfa ekki að sæta saksókn og refsingu oftar en einu sinni fyrir sömu háttsemina.

Dómur var kveðinn upp í máli þeirra árið 2017 og taldi MDE að brotið hefði verið gegn 4. grein 7. viðauka mannréttindasáttmálans. Í kjölfarið óskuðu Jón Ásgeir og Tryggvi eftir endurupptöku á dómi Hæstaréttar í umræddu sakamáli og féllst endurupptökunefnd á beiðnina.

Hæstiréttur vísaði málinu hins vegar frá dómi með þeim rökum að skilyrði fyrir endurupptöku væru ekki uppfyllt. Dómur frá MDE skuldbindi ríkið ekki til að tryggja endurupptöku máls. Ríkið sé hvorki þjóðréttarlega skuldbundið til þess, né sé kveðið á um slíkan rétt í íslenskum lögum. Vakti þessi niðurstaða töluverða furðu og réttaróvissu um gildi dóma MDE hér á landi.

Í því máli sem nú er rekið í Strassborg vísa Jón Ásgeir og Tryggvi aftur til 4. greinar 7. viðauka um rétt til að vera ekki saksóttir oftar en einu sinni fyrir sama brot. Þá telja þeir einnig að synjun Hæstaréttar um endurupptöku máls þeirra í kjölfar fyrri dóms MDE fari í bága við 6. grein sáttmálans um réttláta málsmeðferð.

Málið er nú komið á það stig í Strassborg að íslenska ríkinu hafa verið sendar spurningar um afstöðu þess til kærunnar.

Jón Ásgeir við meðferð Aurum-málsins árið 2016.
fréttablaðið/gva

Óskað er álits ríkisins á lögsögu MDE í málinu og hvort hún hafi breyst eftir niðurstöðu Hæstaréttar um synjun á endurupptöku. Vísað er til dóms yfirdeildar réttarins í portúgölsku máli frá árinu 2011 um að endurupptaka máls sé ekki eina rétta leiðin til að bregðast við dómum MDE og að synjun á beiðni um endurupptöku máls verði ekki sjálfkrafa til þess að ríkið teljist brotlegt við niðurstöðu dómsins eða ákvæði sáttmálans.

Þá er einnig óskað eftir afstöðu ríkisins til kæruefnisins að öðru leyti. Spurt er hvort farið hafi verið í bága við rétt Jóns Ásgeirs og Tryggva til að vera ekki saksóttir tvívegis fyrir sama brot. Dómstóllinn hefur kveðið upp nokkra áfellisdóma gegn Íslandi í sams konar málum eftir fyrri dóm réttarins í máli Jóns og Tryggva. Hefur íslenska ríkið viðurkennt brot og sæst á nokkur mál sem verið hafa til meðferðar í Strassborg um sama efni. Meðal annars mál nokkurra manna sem sakfelldir voru fyrir ólöglegt verðsamráð.

Brugðist hefur verið við þessum dómum þannig að lögum var nýverið breytt í því skyni að koma í veg fyrir tvöfalda refsimeðferð í skattamálum.

Þá er að lokum óskað eftir afstöðu ríkisins til synjunar Hæstaréttar á endurupptöku máls þeirra og hvort sú synjun samræmist ákvæði sáttmálans um réttláta málsmeðferð.