Mál föður ríkislögreglustjóra, Guðjóns Valdimarssonar, og annarra einstaklinga vegna gruns um vopnalagabrot er enn opið og verður mögulega sent aftur til lögreglu til rannsóknar.

Málin komu öll upp við rannsókn á meintum skipulögðum hryðjuverkum þeirra Sindra Freys Birgissonar og Ísidórs Nathanssonar. Lögreglan gerði húsleit á heimili Guðjóns í tengslum við rannsóknina og tók af honum skýrslu en hann hefur áratugum saman stundað vopnasölu og vopnasöfnun. Á heimili hans fundust á fjórða tug vopna sem hann gat ekki gert grein fyrir.

„Það er enn opið og ekki búið að taka ákvörðun um það,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari um mál föður ríkislögreglustjóra. Hann segir að hluti málanna fari að öllum líkindum aftur til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að þar liggur rannsóknarforræði og ákæruforræði vopnalagabrota.

„Þegar þetta kemur hingað var óljóst hvernig eða hvort þetta tengdist og svo er þetta rannsakað og þetta er ekki hluti af efnisákærunni sem var að enda gefin út í hryðjuverkamálinu,“ segir Ólafur og að málin verði ekki afgreidd með þeim.

Hann segir að samtal við lögregluna sé hafið. Hann segir nokkra grunaða um brot á vopnalögum.

„Þetta eru nokkur tilvik og nokkrir einstaklingar þar sem grunur er um vopnalagabrot,“ segir hann og að aðallega séu einstaklingarnir grunaðir um vopnalagabrot en þó einnig önnur brot. Héraðsdómur vísaði á mánudag frá þeim ákærum er snúa að grunuðum hryðjuverkum þeirra Sindra og Ísidórs. Héraðssaksóknari hefur frest þar til í dag til að kæra úrskurð héraðsdóms.