„Við viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að veita þeim vernd sem þurfa á henni að halda og gera það vel. Hér er bæði byrjað að tala efnislega um einstaka mál eins og við ætlum að lesa einstaka úrskurði og einn og einn fréttaflutning frá landinu og meta þannig hvernig niðurstaðan á að vera. Sem betur fer eru það ekki pólitíkusarnir sem eiga að meta niðurstöðuna og ákveða í einstökum málum,“ sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Hún ræddi mál egypsku fjölskyldunnar sem til stóð að vísa úr landi í vikunni við Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, þingkonu Viðreisnar, og Helgu Völu Helgadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar.

Áslaug Arna sagði að Kærunefnd útlendingamála hafi verið komið á fót til þess að endurmeta niðurstöðu Útlendingastofnunar í einstökum málum.

„Auðvitað er þetta viðkvæmur málaflokkur þar sem hann snýst einfaldlega um fólk. Þá verður umræðan tilfinningalegri oft á tíðum. Við erum alltaf að skoða og breyta kerfunum okkar til að það gagnist þeim sem eru í mestu neyðinni,“ sagði Áslaug Arna.

Búið væri nú þegar að gjörbylta kerfinu. Fyrir nokkrum árum hafi 35 manns beðið um vernd hér á landi á ári, nú eru þetta um þúsund. Þá hafi meðferð mála kostað árlega um 600 milljónir króna, núna séu það 4 milljarðar að undanskyldum kostnaði sem falli á sveitarfélög og félagsmálayfirvöld, þetta hafi verið gert til þess að stytta málsmeðferðartímann.

Var hún þá spurð hvort Ísland þurfi að vera opnara en það er í dag. „Við þurfum að hafa hér kerfi sem virkar sem neyðarkerfi,“ sagði Áslaug Arna. Ef fleiri leiti hingað sem þurfi nauðsynlega á því að halda þá fá hér fleiri vernd.“

Þorbjörg Sigríður sagði að henni fyndist núverandi löggjöf vera ágæta en hún setji stórt spurningamerki við túlkunina. „Það er ekki þannig að þetta mál hefði endilega þurft að fara svona innan kerfisins. Það er alltaf eitthvað svigrúm,“ sagði Þorbjörg. Benti hún á að úrskurðirnir séu ekki jafn opnir og dómar í sakamálum.

Þá skaut hún föstum skotum á Ásmund Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sem hafi ekki viljað ræða málið þegar eftir því var leitað. „Mér finnst þetta nánast vera eins og íþróttamaður sem fellur á lyfjaprófi,“ sagði Þorbjörg, undir það tók Helga Vala.

Helga Vala, sagði að hún saknaði þess að stjórnvöld horfi fyrst og fremst á mál barna þegar mál eru skoðuð. „Áslaug kom inn á það að kerfið þurfi að virka. Staðan er þessi að það koma lítil börn til Íslands í ágúst 2018. Fjölskyldan fer í viðtal í lok maí 2019. Þetta er rúmlega heil meðganga þangað til þau sækja um hæli þangað til þau fara í viðtal hjá stjórnvöldum sem spyrja hvers vegna þau séu komin. Þetta er kerfi sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á,“ sagði Helga Vala. „Tvö ár, 25 mánuðir rúmir, í lífi barna, eru rosalega langur tími þegar barn er tveggja ára, eða tíu ára. Þetta er bara staðan.“