Fjöl­skyldurnar tvær sem hafa verið til um­fjöllunar í fjöl­miðlum undan­farnar vikur, Sarwary- og Safari-fjöl­skyldurnar, fá mál sín endur­upp­tekin hér á landi. Út­lendinga­stofnun sam­þykkti ný­verið að taka mál þeirra upp að nýju og mun því taka af­stöðu til þess hvort þau hljóti vernd hér á landi.

RÚV greindi fyrst frá en þar segir að málin verði tekin til efnis­með­ferðar hjá Út­lendinga­stofnun og metið sjálf­stætt hvort þau upp­fylli skil­yrði um stöðu flótta­fólks. Máls­með­ferðar­tími sé mis­jafn en sam­kvæmt vef Út­lendinga­stofnunar sé hefð­bundinn með­ferðar­tími um 230 dagar.

Líkt og fram hefur komið stóð til að vísa fjöl­skyldunum aftur til Grikk­lands þar sem þær höfðu hlotið vernd þar. Fjöl­menni safnaðist saman á Austur­velli á dögunum og mót­mælti brott­vísun þeirra.