Í gær þurfti að fella niður mál fimm manna sem hafa stöðu flóttamanna í Grikklandi og Ungverjalandi vegna þess að málsmeðferð ríkisins tók of langan tíma. Eru þeir úr hópi flóttamanna sem lögmaðurinn Arndís Anna K. Gunnarsdóttir hefur stefnt ríkinu fyrir vegna málsmeðferðar.

Arndís segir tilfinningarnar blendnar. „Í sjálfu sér unnum við sigur í málunum en það er súrsætt því við fáum ekki niðurstöðu dómstóla um þessa framkvæmd. Ég vil fá dóm um þetta því ég tel að stjórnvöld séu að ganga gegn lögum,“ segir hún.

Sjö önnur mál eru í farvatninu en flóttamennirnir koma frá Sýrlandi, Íran, Afganistan og Eþíópíu.

Þar sem þeir hafa stöðu flóttamanna í Grikklandi eða Ungverjalandi neitar Útlendingastofnun að taka við umsóknum. Kærunefndin fellir þá ákvörðun úr gildi en Útlendingastofnun neitar aftur og kærunefndin staðfestir á endanum.

Arndís bindur vonir við eitt mál, en í því var flóttamaður sendur til Ungverjalands daginn áður en 12 mánuðir voru liðnir. „Það er eina málið sem við náum að halda lifandi og vonandi fáum dóm í,“ segir hún.