„Svo framarlega sem fólk kemur hingað sótthreinsað og með grímur þá höfum við leyft pöbbum að koma með og jafnvel systkinum líka,“ segir Guðrún Gunnlaugsdóttir, einn eigenda 9 mánaða í Kópavogi, en þar er uppbókað út árið í þrívíddarsónar.

Verðandi feður, eða makar barnshafandi, mega ekki koma með í sónar á fósturgreiningardeild Landspítalans og eru beðnir um að bíða úti í bíl. Það skilur Guðrún en hún vonar að opnað verði fyrir verðandi feður þar á bæ. „Þar er auðvitað mikið fjölmenni sem gengur inn og út alla daga og það er verið að reyna að fækka fólki þar sem gengur um gangana. Á meðan er okkar staður lítill og sætur og ekki mikið fjölmenni þannig það er ekki full biðstofa hjá okkur af fólki.“

Hún segir skemmtilegt að vita af áhuga maka á að sjá barnið í fyrsta sinn. „Við höfum einmitt leyft fjölskyldunni að koma og stundum fá afar og ömmur líka að koma með. Það er reglulega skemmtileg stemning og hugljúft hvað tengslin verða sterk við að sjá krílið sem er væntanlegt í heiminn.“

Í vikunni tók fyrirtækið í notkun nýjan sónar af bestu gerð sem getur tekið upp myndbönd af væntanlegu kríli. „Þetta er sannkallaður Rolls Royce,“ segir Guðrún og hlær. „Við erum að taka myndbönd þar sem fóstrið er jafnvel að hreyfa sig. Það er svo magnað að sjá fingur og tær hreyfa sig svona snemma á meðgöngunni. Barnið jafnvel veifar til verðandi foreldra og fólki finnst þetta yndislegt að sjá og eiga þessar stundir.“

Fyrirtækið hefur þó fundið fyrir COVID-19 og þurft að loka því tvisvar sinnum. Þó einnig sé nánast uppbókað út árið í nudd þurftu nuddararnir að skella í lás ekki fyrir svo löngu. „Það hefur verið alveg brjálað að gera bæði í meðgöngu­nuddi og heilsunuddi. Við erum ekkert verkefnalausar hér og erum alsælar með það.

Við viljum hafa heimsókn til okkar eins notalegar og hægt er. Tökum vel á móti fólki og höfum notalegt andrúmsloft enda viljum við að fólki líði vel hér hjá okkur,“ segir Guðrún.