Marek Moszczynski, karlmaður á sjötugsaldri sem er ákærður fyrir að hafa orðið þremur að bana með íkveikju að Bræðraborgarstíg í fyrrasumar, afklæddi sig og dreifði saur um fangaklefann kvöldið sem hann var handtekinn við rússneska sendiráðið. Þetta kom fram í skýrslum lögreglumanna sem báru vitni við aðalmeðferð málsins í dag.

Mikil persónubreyting eftir spítaladvöl

Fyrrverandi íbúar við Bræðraborgarstíg, vinnuveitandi og lögregluþjónar hafa borið vitni í aðalmeðferð í Bræðraborgarstígsmálinu og lýst ástandi Mareks í aðdraganda brunans og eftirá.

Svo virðist sem mikil persónubreyting hafi orðið á Marek degi fyrir brunann en hann hafði dvalið á spítala vegna magasárs. Fyrrverandi vinnuveitandi Mareks, sem er einnig læknir, sagðist hafa ekkert nema gott að segja um ákærða. Hegðun hans hafi komið á óvart. Eins sagði einn íbúanna að hann hafi verið hissa þegar hann heyrði að Marek hefði mögulega kveikt eldinn.

Fer úr fötunum fyrir handtökuna í sendiráðinu

Allir sem hittu Marek þann 25. júní lýstu honum sem örum og manískum. Hann hafði rifist við konu í húsinu rétt áður en eldur kviknaði. Vitni númer tvö, sem gaf skýrslu í gær, er eiginmaður téðar konu og hún hafði lýst fyrir honum í símtali að Marek væri orðinn „aggressívur“.

Tveir karlmenn, húseigandi og smiður sem voru í framkvæmdum í húsinu til móts við Bræðraborgarstíg 1 sáu Marek yfirgefa húsið rétt áður en fyrst sást til reyksins, og var hann klæddur skærlituðum jakkafötum og var með fangið fullt af fötum. Þeir sáu til konunnar í glugganum.

Lögreglumaður, sem bar vitni í dag, hafði rætt við konuna um þessi samskipti við Marek áður en hann yfirgaf húsið. „Hún lýsti einkennilegri hegðun. Hann sagðist vera á leiðinni til Moskvu.“

Skjáskot úr myndbandi frá handtökunni við rússneska sendiráðið þann 25. júní 2020.
Ljósmynd/skjáskot

Annar íbúi, karlmaður á sjötugsaldri sem bar vitni í gær, lýsti svipuðu samtali í lögregluskýrslu; Marek hafi verið reiður og lýst því yfir að hann vildi komast úr landi og fara til Kaupmannahafnar.

Marek var handtekinn um tuttugu mínútum eftir fyrstu tilkynningu um brunann, og var hann þá staddur við rússneska sendiráðið. Þar hafði hann klætt sig úr litríku jakkafötunum.

Stefán Karl Kristjánsson, verjandi Mareks í málinu, spurði lögreglumenn og sérfræðinga hvort það væri ekki athugunarvert að engin brunalykt hafi fundist af fatnaði hans. Yfirmaður við tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu staðfesti að ekkert hafi fundist í fatnaði hans, hvorki brunalykt né eldfim efni, en sagði að aðstæður gætu verið mismundi.

„Stundum er kveikt í með eldfimum vökvum, stundum skvettist á menn, stundum ekki, eitt dæmi útilokar ekki annað.“

Ólíklegt að hann hafi gert sér upp veikindin

Sækjandi í málinu velti upp spurningum um hvort Marek hefði getað gert sér upp veikindi sín, líkt og hann segist hafa gert fyrir 30-40 árum til að komast hjá herskyldu. Geðlæknar töldu einkennin í geðrofinu hafa verið svo alvarleg að það væri ekki líklegt að hann hefði getað gert sér þetta upp. Var minnst á hegðun hans í fangaklefanum sem dæmi.

Frétt uppfærð:

Á þriðja degi aðalmeðferðar tilkynnti verjandi um framlagningu nýrra gagna. Enn og aftur er rökrætt um hegðunarbreytingu Mareks í aðdraganda og í kjölfar brunans. Verjandi velti upp spurningum hvort hinn ákærði gæti hafa farið í geðrof vegna sýklalyfs sem hann var að taka vegna magasárs. Stóra spurningin sem hefur úrslitaáhrif í málinu er hvort dómarar telji Marek ósakhæfan líkt og kemur fram í yfirmati geðlækna.