Magnús Davíð Norðdahl, frambjóðandi Pírata í Norðvesturkjördæmi og lögmaður, ætlar að kæra ákvörðun Alþingis um að staðfesta niðurstöður síðari talningar í Norðvesturkjördæmi til Mannréttindadómstóls Evrópu, MDE. Guðmundur Gunnarsson, frambjóðandi Viðreisnar í kjördæminu, hefur einnig gefið út að hann ætli með málið til MDE.
Í yfirlýsingu frá Magnúsi Davíð segir hann að Sigurði Erni Hilmarssyni formanni Lögmannafélags Íslands og eiganda á lögmannsstofunni Rétti hafi verið falið að gæta hagsmuna sinna.
„Uppspretta valdsins í okkar samfélagi er í þingkosningum. Löggjafarvaldið velur hverjir fara með framkvæmdarvald sem síðan skipar þá sem fara með dómsvald. Heilindi kerfisins í heild eru því undir í þessu mikilvæga máli,“ segir Magnús í yfirlýsingu sinni.
Hann kærði málið til Alþingis í byrjun október og fór fram á ógildingu kosninganna í kjördæminu.
„Allar málsástæður kærunnar, hver um sig og eins allar saman, fólu í sér ógildingarannmarka sem voru til þess fallnir að draga úr trúverðugleika talningarinnar, sama hvort litið var til þeirrar fyrri eða síðari, lögbrota og starfa yfirkjörstjórnar í heild og þar með trúverðugleika kosninganna sem fram fóru í kjördæminu,“ segir hann.
„Kjarni málsins er sá að fyrir lágu tvær talningar í meingölluðu ferli þar sem hver ágallinn á fætur öðrum hefur komið í ljós.“
Ef vörslur kjörgagna hefði verið með fullnægjandi hefði mátt sannreyna hvor talningin hafi verið rétt en slíkt hafi ekki verið hægt. „Þingmenn, frambjóðendur og kjósendur í landinu vita því ekki hvort núverandi samsetning þingsins er rétt. Slíkt þing getur aldrei talist lögmætt.“
Magnús segir að þeir þingmenn sem hafi staðfest kjörbréfin þurfi að íhuga stöðu sína og framtíð í stjórnmálum fari svo að hann vinni málið fyrir MDE.