Frumkvöðlafræðingurinn Margrét Friðriksdóttir, stofnandi og stjórnandi Stjórnmálaspjallsins sem telur rúmlega 8.800 meðlimi birti í dag harðorða yfirlýsingu á hópnum og á eigin Facebook-síðu þar sem hún segist ætla að kæra DV fyrir það sem hún kallar „ofsóknir og ofbeldi.“ Þá segir hún DV með fréttum af henni, sem hún lítur á sem „neteinelti“ hafa kallað yfir hana hatur úti í samfélaginu.

„Það er kannski við hæfi svona í ljósi þess að DV njósnar um mig og tekur allt niður sem að ég skrifa og býr til æsifréttir einungis til vekja á mér neikvæða athygli og að fá fólk til að gera lítið úr mér í kommentakerfunum og græða á því í leiðinni, tilgangurinn er að eyðileggja mannorð mitt sem þeir eru langt komnir með og fá fólk til að hata mig og/eða fyrirlíta í gegnum miðilinn, þetta er hinn svokallaði gapastokkur nútímans í allri sinni mynd.“

Svona hefst yfirlýsing Margrétar sem segist í samtali við Fréttablaðið vera búna að ræða við lögmann sinn og að nú muni hún, langþreytt, láta svera til stáls. „Við förum bara á fullt í þetta fljótlega. Ég er búin að safna öllum gögnum sem styðja þetta augljósa einelti. Sem er náttúrlega bara ofbeldi. Það vita allir að einelti og ofsóknir eru ofbeldi og það er glæpsamlegt. Þetta varðar við lög,“ segir Margrét, öskureið svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Einbeittur brotavilji

En nú ferð þú ekki beinlínis leynt með skoðanir þínar þannig að þú vilt væntanlega vekja á þeim athygli?

„Það er ekki bannað að hafa skoðanir og jú, ég vil að þær heyrist á umræðusíðum en ef þær eru birtar á DV þá er lágmark að hafa samband við mig og biðja um leyfi fyrir birtingu þeirra. Það er aldrei gert í mínu tilfelli. Það er allt tekið upp til þess að reyna að birta neikvæða mynd af mér,“ segir Margrét og vill meina að DV láti ógert að vitna í hana þegar hún láti eitthvað frá sér sem gæti almennt talist jákvætt.

„Ég skrifaði til dæmis mjög góðan pistil um sjálfsvíg í kringum jólin en efnið er mér mjög ofarlega í huga og stendur mér nærri,“ segir Margrét og minnir á að faðir hennar hafi stytt sér aldur. „Þetta vakti mikla athygli en þeim datt ekki í huga að segja frá þessum pistli vegna þess að það hefði skekkt þeirra mynd af mér og gæti fengið fólk til að hugsa fallega til mín. Þannig að þetta er augljós og einbeittur brotavilji.“

Stjórnmálaspjallið hlýtur samt að teljast opinber vettvangur, sem vitna má í, með sína hátt í 10.000 meðlimi?

„Það breytir því ekki að þótt fólk sé í einhverjum samræðum þar að þá er ég sem einstaklingur sérstaklega tekin út og gerðar fréttir upp úr öllu sem ég skrifa þar og svara,“ segir Margrét og fullyrðir að þetta sé fordæmalaust. „Þetta er bara sett fram í neikvæðum tilgangi. Það er augljóst.“

En eru ekki skoðanir þínar teknar þaðan upp orðrétt og getur einfaldlega ekki verið að þær veki neikvæð viðbrögð hjá ákveðnum hópum fólks?

„Það er nú ekki alltaf orðrétt,“ segir Margrét og bendir á frétt DV frá því í gær, dropann sem fyllti mælinn, þar sem hún segir framsetninguna augljóst dæmi um að tilgangurinn sé að láta hana líta illa út.

Klámdropinn sem fyllti mælinn

Fréttin hverfist um eftirfarandi ummæli Margrétar og hún segir alla áherslu á tal hennar um „klámklæðnað“ en skautað fram hjá því að gagnrýni hennar hafi beinst að „sadómasó-kynlífsþrælaklæðnaði“ sem setji gagnrýni hennar í allt annað samhengi:

„Hvernig er það ætli þetta teljist ekki brot á barnasáttmála sameinuðu þjóðanna að klæða börn í BDSM búning, vita þessir foreldrar sem að ætla að klæða börnin í þetta á morgun ekki hvað BDSM gengur útá sem sagt sadómasísk og kvalafullt kynlíf?“

Það er verið að reyna að láta mig líta illa út og allur sannleikurinn er ekki settur fram. Framsetningin, fyrirsagnir og öll umgjörð þessara frétta miða alltaf að því sama.

„Það kærir sig enginn um svona ofsóknir og þetta hefur vitanlega áhrif á fólk. Það getur enginn staðið undir svona stöðugu áreiti. Ég á líka börn á unglingsaldri sem lesa miðlana og vinir þeirra líka. Fréttirnar kalla síðan á hatursfullar athugasemdir þar sem mér er sagt að drulla mér úr landi og fleira slíkt.

Hræðilegt hatur

Þetta er bara komið nóg og mælirinn er bara fullur. Þeir ætla ekkert að hætta. Þeir ætla að viðhalda þessu og þetta er komið út í það að fullt af fólki í þjóðfélaginu er farið að hata mig út af þessum fréttaflutningi þeirra og það er hræðilegt.“

Margrét segist þó ekki ætla að láta andstreymið aftra sér frá því að lýsa skoðunum sínum. Slíkt komi ekki til greina. „Samfélagið er að verða viðbjóðslegt. Ég má alveg hafa mínar skoðanir á BDSM-klæðnaði í friði og finnast hann ekki vera fyrir börn, án þess að ég sé tekin fyrir og rökkuð niður og hötuð fyrir vikið. Þetta er bara ekki í lagi.“