Feðgarnir Bjarki Björgólfsson og Þorsteinn Jón Bjarkarson, sem er ávallt kallaður Steini, lentu í miklu ævintýri þegar þeir mættu stórri hreindýrahjörð á Vopnafjarðarheiði þegar þeir voru á leið úr rjúpnaveiði síðustu helgi.

„Þetta eru tignarleg dýr og virka enn tignarlegri þegar maður er í þriggja til fjögurra metra fjarlægð frá þeim. Maður finnur kraftinn þegar þau eru að hlaupa yfir,“ segir Steini í samtali við Fréttablaðið.

Hann náði að fanga augnablikið á myndband en hann segist hafa fyrst séð hjörðina úr fjarska og hafi þeir því hægt á bílnum í öryggisskyni.

Hjörðin hljóp með fram veginum og tók svo krappa beygju og yfir akbrautina. Hann telur að um hafi verið að ræða 200 til 300 tarfa í hjörðinni. Hann hafi einnig séð nokkra kálfa og að minnsta kosti eina kýr sem reyndist vera merkt. „Kýrin var með rauða ól og hún heitir víst Anna,“ segir Steini.

„Maður hefur nú oft séð dýrin. Það eru svo mikið af hreindýrum á þessum slóðum. Við sáum hjörðina með miklum fyrirvara og vissum að hún gæti tekið upp á því að rjúka yfir veginn. Það getur verið pínu hættulegt en við þekkjum þetta vel að austan,“ segir Steini en hann er frá Vopnafirði en býr nú í Kópavogi.

Myndbandið hefur farið eins og eldur í sínu um samfélagsmiðla og hafa tæplega þúsund manns deilt því nú þegar.