Nokkra sunnudaga í röð hafa friðsamleg mótmæli farið fram í sunnudagsmessu í Digraneskirkju sem hafa vakið athygli gesta og þeirra sem þjóna í kirkjunni. Theódóra Hugrún Ólafsdóttir, fyrrverandi starfsmaður í Digraneskirkju, stendur fyrir mótmælunum en henni var sagt upp störfum hjá kirkjunni eftir sex mánaða starf í lok síðasta mánaðar.

Telur Theódóra Hugrún uppsögnina hafa verið á þeim forsendum að hún hafi staðið með þolendum í máli séra Gunnars Sigurjónssonar. Hún ásamt fleirum hafa mætt í sunnudagsmessur í Fokk ofbeldi bolum til að mótmæla afstöðu sóknarnefndar og þá sérstaklega formanni sóknarnefndarinnar, Valgerðar Snæland Jónsdóttur, um að styðja Gunnar í málinu.

Vikið frá störfum úr kirkjunni

Líkt og greint hefur verið frá ásökuðu sex konur innan kirkjunnar Gunnar um kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti. Hann var í kjölfarið settur í leyfi frá störfum í desember síðastliðnum á meðan óháð teymi Þjóðkirkjunnar rannsakaði mál hans. Honum var svo vikið úr kirkjunni í september eftir að niðurstaða teymisins lá fyrir.

Vilja fá Gunnar aftur til starfa

Sóknarnefnd Digraneskirkju hefur sagst vilja fá séra Gunnar aftur til starfa. Valgerður hefur sagt sóknarnefnd kirkjunnar einhuga í ósk sinni um að hann snúi aftur til starfa.

Aðspurð út í mótmælin segir Theódóra Hugrún þau snúa líkt og fyrr segir um afstöðu nefndarinnar og formannsins í máli Gunnars. Valgerður hafi tjáð sig um uppsögn hennar í viðtali á Útvarpi Sögu þar sem hún segir ráðningarsamning Theódóru Hugrúnar hafa verið liðinn en að það sé ekki rétt því hún hafi fengið uppsagnarbréf.

„Persónulegi parturinn fyrir mig er að ég vann í þessari kirkju og mér þykir vænt um starfið, sóknarbörnin, eldri borgara starfið og fermingarbörnin. Ég er hreint úr sagt miður mín að sjá hvernig starfið hefur orðið eftir að hún tók við og okkur öllum bolað burt,“ segir Theódóra Hugrún og vísar til þess að flestir þeir kvenprestar og aðrir starfsmenn sem ásökuðu Gunnar um ofbeldi séu ekki lengur starfandi innan Digraneskirkju sem var sameinað prestakall með Hjallakirkju um stund.

Sitja framarlega í messunum

Theódóra Hugrún segir viðbrögð sóknarnefndarinnar við komum hennar og annarra í sunnudagsmessur mjög lítil. Fólk sem mæti til messu eða þjóni í kórnum hafi þó komið til þeirra og rætt við þau í súpunni eftir messurnar. „Þau hafa spurt okkur hvað við erum að gera og hrósað okkur og staðið með okkur.“

„Við náttúrulega fáum engin bein viðbrögð hvorki frá sóknarnefnd eða prestum,“ segir Theódóra Hugrún og bætir við að hún hafi ekkert út á starfandi prest kirkjunnar, séra Sigurð Jónsson, að setja.

„Við tökum þátt í messunum, syngjum með sálmum, erum til friðs og förum með bænir. Við pössum bara að vera framarlega svo þau geti lesið aftan á bolina okkar,“ segir Theódóra Hugrún og bætir við að mótmælin snúist um að vera sýnileg og sýna að það virki ekki bola fólki út líkt og gerðist. „Líka til að standa með þeim þolendum sem eftir eru, það eru þolendur eftir í kirkjunni,“ segir Theódóra Hugrún sem hyggst halda áfram að mæta til messu í Digraneskirkju til að mótmæla.

Theódóra Hugrún var starfsmaður í Digranes- og Hjallaprestakalli áður en henni var sagt upp.
Mynd/Samsett