Forsvarsmenn Sementsverksmiðjunna á Akranesi mættu á fund bæjaráðs í gær og kváðust harma óhapp sem varð fyrir viku og olli tjóni á nálægum bílum og mannvirkjum.

Fram hafði komið af hálfu Semnetsverksmiðjunnar að þriðjudaginn 5. janúar hafi sementsryk þyrlast upp frá sílói og lagst yfir nágrenni verksmiðjunnar. Óhappið hafi orðið vegna mannlegra mistaka sem urðu til þess að sementssíló yfirfylltist við uppskipun um nóttina og sementsryk sest á götur, hús og bíla í nágrenninu. Rykið hafi ekki ógnað heilsu fólks en getað valdið skemmdum á munum og byggingum. Vel hafi gengið að hreinsa rykið upp.

Þeir Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sementsverksmiðjunnar, og Þorsteinn Víglundsson, stjórnarformaður Sementsverksmiðjunnar og forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins, komu fyrir sameiginlegan fund skipulags- og umhverfissviðs og bæjarráðs í gær til að skýra ástæður fyrir óhappinu og viðbrögð fyrirtækisins vegna þess.

Samkvæmt fundargerð bæjarráðs sögðust Gunnar og Þorsteinn harma óhappið mjög og líta það mjög alvarlegum augum.

Bæjarráð fyrir sitt leyti leggur áherslu á að þeir sem telji sig hafa orðið fyrir tjóni vegna óhappsins fái viðunandi úrlausn sinna mála. Sementsverksmiðjan þurfi að upplýsa sem best og víðast um ráðstafanir til að lágmarka sem mest áhættuna af því slíkt óhapp geti endurtekið sig.