Dóms­mála­nefnd öldunga­deildar Banda­ríkja­þings sam­þykkti fyrr í dag að til­nefning Amy Con­ey Bar­rett í Hæsta­rétt Banda­ríkjanna yrði lögð fyrir öldunga­deildina í heild sinni en at­kvæða­greiðslan fór fram viku eftir að til­nefningin var tekin fyrir innan nefndarinnar.

Leiðtogi Demókrata innan öldungadeildarinnar, Chuck Schumer tilkynnti í gær að þau kæmu til með að sniðganga atkvæðagreiðsluna. Alls greiddu tólf þing­menn nefndarinnar úr röðum Repúblikana með til­nefningunni en þar sem þing­menn Demó­krata, alls tíu talsins, voru ó­sáttir við til­nefninguna mættu þeir ekki þegar at­kvæða­greiðslan fór fram.

Vildi ekki leyfa Demókrötum að stjórna

Linds­ey Graham, for­maður dóms­mála­nefndarinnar, hóf fund nefndarinnar með því að lýsa því yfir að Demó­kratar væru ekki að fara að stjórna nefndinni. Á­kveðið var að at­kvæða­greiðslan myndi fara fram þrátt fyrir reglur nefndarinnar um að að minnsta kosti tveir þing­menn úr minni­hlutanum þurfi að vera við­staddir. Engu að síður var það ein­róma á­kveðið að senda til­nefninguna til öldunga­deildarinnar.

Á­ætlað er að öldunga­deildin komi saman næst­komandi mánu­dag til þess að ræða til­nefninguna en þá verður mánuður frá því að Trump til­nefndi Bar­rett í sæti Gins­burg heitinnar. Nánast öruggt er að Bar­rett verði skipuð þar sem Repúblikanar eru með meiri­hluta innan öldunga­deildarinnar.

Tekist á um tilnefninguna

Demó­kratar hafa gagn­rýnt Repúblikana innan öldunga­deildarinnar harð­lega vegna til­nefningarinnar. Annars vegar þar sem Repúblikanar hafa lýst því yfir að þeir vilji skipa Bar­rett í réttinn fyrir komandi for­seta­kosningar en Repúblikanar stöðvuðu til­nefningu Obama árið 2016 með þeim rökum að það væri of stutt í kosningar.

Þá hafa Demó­kratar einnig gagn­rýnt að um sé að ræða þriðju skipun Trumps í réttinn en ef Bar­rett verður skipuð verða í Hæsta­rétti sex dómarar sem til­heyra í­halds­samari armi réttarins á móti þremur frjáls­lyndari dómurum. Mikið var tekist á um skoðanir Bar­rett í síðustu viku og óttast margir úr röðum Demó­krata hvað skipun hennar hefur í för með sér þegar kemur að framtíð réttarins.

Eitt helsta málið þar snýr að almannatryggingakerfinu Affordable Care Act (ACA), en Hæstiréttur tekur það fyrir í næsta mánuði. Í sætum Demókrata á fundinum í dag voru myndir af nokkrum Bandaríkjamönnum sem nýta sér kerfið.