„Það þýðir ekki að skella endalaust skollaeyrum við því að við þurfum að skoða gæði sands og salts og malbiks í borginni,“ sagði Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á borgarstjórnarfundi í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag.

Marta mætti með vatnsblandað svifryk í krukku í pontu, til að leggja áherslu á mál sitt. Hún upplýsti að svifrykið hefði safnast saman í bílskúr í Reykjavík af einum bíl. Það væri mánaðargamalt. „Þið getið ímyndað ykkur að þegar við erum ekki að skoða gæði malbiks betur en raun ber vitni, þá geta þetta orðið afleiðingarnar. Þetta fer út í andrúmsloftið.“

Marta talaði fyrir því að gera þyrfti úttekt á gæðum sands og salts sem fer á götur í borginni. Þessi efni þurfi að standast staðla.

Píratinn Sigurbjörg Ósk Haraldsdóttir benti á í andsvari að allar stofnbrautir í Reykjavík hefðu verið þrifnar og rykbundnar. Umferðin orsakaði svifrykið, miklu frekar en óþrifnaður. Hún sagði að lausnin fælist í breyttum ferðavenjum fólks.