„Oft er talað um ADHD sem vandamál en ég lít svo á að þetta sé ofurmáttur sem dreif mig út í pólitíkina,“ segir Dóra Björt Guðjónsdóttir Pírati og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir Sjálfstæðiskona segist taka heils hugar undir með henni.

Borgar­full­trúarnir ræða við Frétta­blaðið um lífið eftir greiningu og á leiðinni í Ráð­húsið mæta þær öðrum borgar­full­trúum á leið út úr húsi. Nokkrum sinnum staldra þær við og benda á sam­starfs­fólk sitt og segja: „Þessi er með ADHD. Já, og þessi líka.“ Það mætti halda að hálf borgar­stjórnin sé með of­virkni eða at­hyglis­brest.

„Já, það eru nefni­lega fjöl­margir já­kvæðir eigin­leikar ADHD sem nýtast vel í pólitík,“ út­skýrir Alda.

Dóra Björt og Alda eiga það sameiginlegt að vera hugmyndaríkar, listrænar og miklir eldhugar með óseðjandi forvitni. Þær eiga auðvelt með að sjá stóru myndina og vinna einstaklega vel undir pressu en þetta eru einkenni ADHD sem stundum gleymast enda er svo oft einblínt á neikvæðu hliðarnar

Alda kallar þetta listamannasálina að geta þrifist og lifað í öllu með ofhugsandi hvatvísi. „Það getur verið furðulegur kokteill,“ segir Alda. „Já, og mjög þreytandi,“ skýtur Dóra inn í.

„Ég tékkaði í öll boxin og það var mikill léttir þegar sálfræðingurinn staðfestir grunsemdir mínar.“

Alda og Dóra segja konur oft setja upp grímu til að fela ADHD.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ótrúlegur léttir að fá greiningu

Dóra segist vera nýbúin að fá greiningu og lýsir gríðarlegum létti og uppljómun þegar hún fékk staðfestinguna. Hún ákvað að láta til skarar skríða eftir að hún lenti á vegg í borgarstjórn.

„Ég byrjaði í borgarstjórn og hætti bara að sofa,“ útskýrir Dóra. Þegar hún byrjaði í borgarstjórn var hún einnig í meistaranámi og að reyna að vinna sig í gegnum lágt sjálfsmat.

„Það er mikið basl að burðast með í pólitík þegar allir eru að reyna að draga mann niður og gagnrýna mann.“ Þegar hún leit yfir augnablikin í lífi sínu sem kyntu undir þessu lága sjálfsmati sá hún tenginguna við ADHD. „Allt í einu tengdust allir punktarnir á korti lífs míns.

Alda fékk sína greiningu 23 ára gömul eftir að hún las sér til um ADHD í sál­fræði­tíma í há­skólanum. Hún segir sam­nem­endur sína hafa sett tvo og tvo saman meðan hún var í af­neitun.

„Ég af­sakaði allt og sagðist bara vera smá utan við mig og eiga erfitt með að sofa. Svo las ég mér til um þetta í sál­fræði­tíma og áttaði mig á því að ég væri bara skóla­bókar­dæmi.“

Alda segir ákveðið innsæi fylgja greiningunni. „Fyrir mér var mjög mikilvægt að fá greiningu. Ég tékkaði í öll boxin og það var mikill léttir þegar sálfræðingurinn staðfesti grunsemdir mínar.“

Á iði undir yfirborðinu

Ekki var auð­velt að sann­færa for­eldrana. Alda segist hafa upplifað mikinn kvíða og keyrt sig út á tvítugsaldri. Hún rifjar upp fyrsta samtalið við móður sína þar sem hún bar upp spurninguna um hvort hún ætti ekki að fara í greiningu.

„Mamma, ég held að ég sé með ADHD.“ Svaraði þá móðir hennar: „Nei, nei, Alda mín. Þetta er ekki svo slæmt. Ertu ekki bara þreytt?“ Að fara í greiningu var enn mikið feimnismál.

Dóra hefur svipaða sögu að segja.

„Foreldrar mínir eiga til dæmis erfitt með að horfast í augu við að ég sé með ADHD því mér hefur tekist að gera það sem ég vildi í lífinu,“ segir Dóra. Eldri systir hennar er líka með ADHD sem er meira „týpískt“ að sögn Dóru. Foreldrar hennar áttu fullt í fangi með systur hennar á meðan Dóra lærði snemma að setja upp grímu. Dóra var þó ekkert minna ofvirk þótt hún virtist yfirveguð og róleg á yfirborðinu.

„Oft er talað um ofvirkan heila. Ég hélt að ég væri með athyglisbrest en heilinn minn var samt snarofvirkur og stoppaði ekki.“

Ofvirkni kemur stundum ólíkt fram hjá konum og körlum og konur greinast því oft seinna á ævinni. Á sama tíma og ungur strákur iðar í skinninu og getur ekki setið kyrr er stelpan með allt í gangi í huganum og virkar utan við sig eða eins og hún geti ekki hætt að tala.

„Við konur greinumst seint vegna þess að við erum góðar í að fela það,“ segir Alda.

„Við setjum upp grímu og erum með mikla aðlögunarhæfni,“ segir Dóra.

Þó Dóra Björt og Alda virðast yfirvegaðar á yfirborðinu er heilinn „snarofvirkur“ eins og þær orða það.
Fréttablaðið/Getty images

Blaðamaður spyr konurnar tvær hvernig þessi eiginleiki lýsi sér í þeim og Dóra og Alda skiptast á að telja upp einkennin og nánast botna hvor aðra í annarri hverri setningu.

„Ég get étið upp, innfært og þulið upp ótrúlegar staðreyndir en get ekki munað nöfn fyrir mitt litla líf,“ segir Alda. „Sama hér,“ segir Dóra skælbrosandi og heldur áfram: „Ég á ótrúlega erfitt með að muna nöfn og ég rata ekki neitt.“ Alda hlær. „Sama hér! Google Maps breytti lífi mínu.“ Og Dóra tekur undir. „Ég get farið á sama stað tíu sinnum en þarf samt að nota Google Maps.“

Segjast þær sía upplýsingar öðruvísi en flestir. „Dæmigerðir stærðfræðingar taka línulega nálgun í hugsunarhætti en fólk með ADHD tekur allt mengið,“ segir Alda. „En þannig er heimurinn. Hann er kaotískur, ekki línulegur,“ segir Dóra. „Einmitt,“ segir Alda. „Við erum alltaf að hugsa um alla mögulega áhrifaþætti og út frá því reynum við að komast að bestu niðurstöðunni.“

Dóra segir athyglisbrest vera ákveðið rangnefni. Þetta sé fyrst og fremst ofureinbeiting. „Ef ég er að vinna með eitthvað sem skiptir mig máli get ég sest niður og einbeitt mér í margar klukkustundir,“ segir hún. „Ég skil abstrakt hugtök og samhengi hlutanna mjög vel. Ég er með fræðilegan heila og elska að sitja við rannsóknir en þá teiknast upp allur heimurinn og ég skil hvernig allt hangir saman.“ Alda kinkar kolli. „Forvitni fylgir þessu. Algjör óseðjandi forvitni.“

Dóra og Alda vilja skapa góðan jarðveg í skólakerfinu fyrir börn með ADHD. „Við erum öll að gera okkar besta. Allir heilar eru margbreytilegir og sérstaklega meðal ADHD fólks.“
Fréttablaðið/samsett mynd

Erfitt að breyta skólakerfinu

En hvað þýðir það fyrir stefnu­mál borgar­full­trúa að vera með ADHD?

„Ákveðið umburðarlyndi og fordómaleysi fylgir því að vera með greiningu. Ég hef lagt mikla áherslu á að skapa skólakerfi sem tekur mið af þörfum einstaklingsins og lyftir honum upp á hans forsendum.“

Alda styður þessa hugsjón. „Fjölbreytileikinn er lykillinn að góðu samfélagi. Við Dóra eigum það sameiginlegt að brenna fyrir okkar málefnum og vinna að þeim markvisst. Kannski er það ástæðan fyrir því að við völdum báðar þennan veg.“

Þær segja erfitt að breyta kerfinu. „Skólakerfið er svo miðstýrt hér á Íslandi. Bæði ríki og sveitarfélög stýra skólanum og það eru of margir kokkar í eldhúsinu. Þess vegna er svo erfitt að knýja fram eina heildstæða breytingu,“ segir Alda.

Dóra segir menntastefnu Reykjavíkurborgar snúast um að láta draumana rætast. „Stefnan er meðal annars byggð á því að reyna að skapa einstaklingsmiðuð tækifæri fyrir börn. Þetta er umfangsmikið verkefni og við þurfum að halda áfram á sömu braut. Þetta snýst líka um hvernig við menntum kennarana okkar og hvaða námsgögn við notum. Þó við séum með metnaðarfulla menntastefnu í Reykjavík er námsgagnagerð í höndum ríkisins.“

Fyrst og fremst segja þær mikilvægast fyrir fólk með ADHD að hætta samanburðinum. „Við erum öll að gera okkar besta. Allir heilar eru margbreytilegir og sérstaklega meðal ADHD-fólks,“ segir Dóra. „Við erum með mismunandi hæfileika og þurfum að innbyggja meiri fjölbreytileika á öllum sviðum,“ segir Alda.