Ítölskum ríkis­starfs­manni hefur verið lýst sem „konungi skrópara“ í ítölskum fjöl­miðlum eftir að upp komst um að hann hefði ekki mætt í vinnuna í fimm­tán ár.

Um­ræddur starfs­maður vann hjá Pu­gliese Ciaccio sjúkra­húsinu í borginni Catanzaro og fékk hann greidd mánaðar­leg laun þrátt fyrir að hafa ekki mætt til vinnu síðan 2005. Launa­greiðslur mannsins yfir fimm­tán ára tíma­bilið nema um 538.000 evrum sem jafn­gildir um 81,5 milljónum ís­lenskra króna.

Maðurinn, sem er 67 ára gamall, stendur frammi fyrir á­sökunum um mis­notkun í starfi, skjala­fals og kúgun. Sex yfir­menn sæta einnig rann­sókn grunaðir um að hafa átt aðild að málinu og gert manninum kleift að skrópa svo lengi í vinnuna. Manninum er gert að sök að hafa hótað for­stjóra spítalans árið 2005 til að fá hana ofan af því að leggja fram skýrslu vegna fjar­veru hans í starfi. For­stjórinn hætti stuttu síðar og skróp mannsins héldu á­fram ó­á­reitt næstu árin vegna þess að eftir­maður for­stjórans í mann­auðs­deild spítalans skoðaði aldrei mætingu hans.

Talið er að slík fjar­vera í starfi sé mjög al­geng meðal opin­berra starfs­manna á Ítalíu. Í rann­sókn sem gekk undir dul­nefninu „Hluta­starf“ safnaði lög­regla saman gögnum um mætingu starfs­fólks í gegnum launa­seðla og við­töl við sam­starfs­fólk.

Í annarri rann­sókn notuðust lög­reglu­menn við faldar mynda­vélar til að góma 35 starfs­menn í ráð­húsi Sanremo sem höfðu svindlað á innstimplunar­kerfi vinnu­staðar síns í að minnsta kosti tvö ár. Konur tveggja starfs­manna voru staðnar að verki við að stimpla eigin­menn sína inn og tveir aðrir starfs­menn stimpluðu sig inn áður en þeir fóru út á bát eða út að versla.