„Þetta er bara eins og í Rúss­landi, ég meina hvurs­lags er þetta eigin­lega?“ spyr Hólm­fríður Árna­dóttir sem var á leið heim af sínum fyrsta þing­flokks­fundi með VG þegar hún heyrði í út­varpinu að hún væri dottin út af þingi eftir endur­talningu í Norð­vestur­kjör­dæmi.

„Ég er bara að keyra Reykja­nes­brautina heim til mín og þá bara skellur þetta á mann í bílnum,“ segir Hólm­fríður sem ætlar að krefjast greinar­gerðar frá lands­kjör­stjórn vegna málsins. „Allt við þetta er ó­trú­lega fá­rán­legt og ó­manneskju­legt. Þetta er for­dæma­laust, ég hef aldrei vitað önnur eins vinnu­brögð og aðra eins fram­komu,“ segir hún sár­svekkt og bendir á að kjör­stjórnin hafi verið búin að senda frá sér at­kvæðin.

„Þarna eru eftir­lits­menn frá öllum flokkum, tíu eftir­lits­menn, því ég hef verið við­stödd svona talningu sjálf, sem sam­þykkja og gúddera þessar gjörðir í fyrstu talningu. Svo á­kveður bara einn maður, upp á sitt eins­dæmi, ef þetta er rétt sem birst hefur í fréttum, að telja aftur og telur að þetta muni mögu­lega breyta ein­hverju. Þetta eru fá­rán­leg vinnu­brögð og ó­lýð­ræðis­leg og alls ekki í anda þess sem við sem þjóð kennum okkur við,“ segir Hólm­fríður, sem líkir málinu við það sem geti gerst í Rúss­landi eins og fyrr segir.

Í sam­tali við Frétta­blaðið nú í há­deginu sagðist Ingi Tryggva­son, for­maður yfir­kjör­stjórnar í Norð­vestur­kjör­dæmi, ekki sjá neina á­stæðu til að bregðast við mis­tökunum í talningu. Hann sagðist ekki sjá á­stæðu til að kjósa upp á nýtt, þar sem nú sé búið að finna rétta niður­stöðu með endur­talningu.

Hólm­fríður spyr sig hvað Inga hafi gengið til. „Við segjumst vera lýð­ræðis­legt sam­fé­lag, hér sé allt gegn­sætt og upp­lýst og ég spyr mig bara; hvað gekk þessum manni til? Það er bara þannig.“

Hólm­fríður segist ætla að óska eftir greinar­gerð frá lands­kjör­stjórn. „Af því að þetta er náttúru­lega í þeirra skjóli, af hverju er þessi á­kvörðun tekin og á hvaða for­sendum? Ég vil óska eftir út­skýringum og láta reyna á rétt­mæti þessarar niður­stöðu.“