„Þetta er bara eins og í Rússlandi, ég meina hvurslags er þetta eiginlega?“ spyr Hólmfríður Árnadóttir sem var á leið heim af sínum fyrsta þingflokksfundi með VG þegar hún heyrði í útvarpinu að hún væri dottin út af þingi eftir endurtalningu í Norðvesturkjördæmi.
„Ég er bara að keyra Reykjanesbrautina heim til mín og þá bara skellur þetta á mann í bílnum,“ segir Hólmfríður sem ætlar að krefjast greinargerðar frá landskjörstjórn vegna málsins. „Allt við þetta er ótrúlega fáránlegt og ómanneskjulegt. Þetta er fordæmalaust, ég hef aldrei vitað önnur eins vinnubrögð og aðra eins framkomu,“ segir hún sársvekkt og bendir á að kjörstjórnin hafi verið búin að senda frá sér atkvæðin.
„Þarna eru eftirlitsmenn frá öllum flokkum, tíu eftirlitsmenn, því ég hef verið viðstödd svona talningu sjálf, sem samþykkja og gúddera þessar gjörðir í fyrstu talningu. Svo ákveður bara einn maður, upp á sitt einsdæmi, ef þetta er rétt sem birst hefur í fréttum, að telja aftur og telur að þetta muni mögulega breyta einhverju. Þetta eru fáránleg vinnubrögð og ólýðræðisleg og alls ekki í anda þess sem við sem þjóð kennum okkur við,“ segir Hólmfríður, sem líkir málinu við það sem geti gerst í Rússlandi eins og fyrr segir.
Í samtali við Fréttablaðið nú í hádeginu sagðist Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, ekki sjá neina ástæðu til að bregðast við mistökunum í talningu. Hann sagðist ekki sjá ástæðu til að kjósa upp á nýtt, þar sem nú sé búið að finna rétta niðurstöðu með endurtalningu.
Hólmfríður spyr sig hvað Inga hafi gengið til. „Við segjumst vera lýðræðislegt samfélag, hér sé allt gegnsætt og upplýst og ég spyr mig bara; hvað gekk þessum manni til? Það er bara þannig.“
Hólmfríður segist ætla að óska eftir greinargerð frá landskjörstjórn. „Af því að þetta er náttúrulega í þeirra skjóli, af hverju er þessi ákvörðun tekin og á hvaða forsendum? Ég vil óska eftir útskýringum og láta reyna á réttmæti þessarar niðurstöðu.“