Gunnar Einars­son, fyrr­verandi bæjar­stjóri í Garða­bæ, Bjarni Jóns­son, þing­maður VG, og Ey­þór Arnalds, fyrr­verandi leið­togi Sjálf­stæðis­manna í Reykja­vík, voru allir með innan við 50 prósenta mætingu á stjórnar­fundi Sam­bands ís­lenskra sveitar­fé­laga (SÍS) frá ágúst í fyrra fram í apríl þetta ár. Fundirnir eru aug­lýstir með árs fyrir­vara.

Þre­menningarnir hafa allir verið stjórnar­menn í SÍS og fá eins og aðrir stjórnar­menn greiddar um 130 þúsund krónur á mánuði fyrir stjórnar­setuna, hvort sem þeir sitja fundi eða ekki.

Af fundar­gerðum að dæma voru þeir fjar­verandi fimm til sex sinnum á átta stjórnar­fundum á fyrr­nefndu tíma­bili. Að­eins einu sinni sat vara­maður Bjarna fundina í hans stað. Fjórum sinnum var Bjarni því fjar­verandi án þess að nokkur fyllti í hans skarð. Sam­kvæmt fundar­gerðum hafa flestir aðrir stjórnar­menn leitast við að kalla inn vara­mann við for­föll.

Tíðar fjar­vistir sumra stjórnar­manna á fundum hafa verið ræddar innan SÍS að sögn Al­dísar Haf­steins­dóttur, formanns. „Það geta verið mis­munandi á­stæður fyrir því að fólk kemst ekki á fundi en okkur þykir baga­legt ef þetta gerist svona í­trekað,“ segir Al­dís.

Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir mismunandi ástæður liggja að baki því að fólk kemst ekki á fundi. Þó þyki þeim bagalegt ef slíkt gerist ítrekað.
Fréttablaðið/Eyþór

Að­spurð segist Al­dís ekki ætla að fella dóma um mætinguna. „En það er engin spurning að margir sveitar­stjórnar­menn vilja í stjórn sam­bandsins, það er heil­mikil sam­keppni um stjórnar­setuna og þess vegna er eðli­legt að fólk reyni af fremsta megni að mæta á fundi eða leitist við að vara­menn mæti.“

Hvorki náðist í Gunnar né Bjarna. Ey­þór Arnalds skýrði fjar­vistir sínar með því að oft væri erfitt að fá vara­mann. Fundirnir hefðu stundum skarast við fundi í nefndum á vegum Reykja­víkur­borgar.

„Ég held það væri betra fyrir­komu­lag ef hægt væri að velja fleiri en einn vara­mann,“ segir Ey­þór.

Hildur Björns­dóttir var vara­maður Ey­þórs á því tíma­bili sem um ræðir.