Nokkrar umræður hafa spunnist á Facebook um Ófærðarþátt gærkvöldsins þar sem ein persónanna var sögð „korter í Downs.“ Unnur Helga Óttarsdóttir og Sandra Björg Steingrímsdóttir eru mæður barna með Downs-heilkennið og vöktu báðar athygli á þessu á Facebook og lýstu um leið miklum vonbrigðum og sárindum vegna þeirra fordóma sem þær finna fyrir í tali sem þessu.

„Er að horfa á Ófærð og er orðlaus og sár!!!!!! Þar kemur fram að ,,Skúli er korter í Downs”. Í alvöru, hvað þýðir þetta?“ spurði Unnur Helga á Facebook í gærkvöld og rifjaði upp að sami frasi hefði orði landlægur eftir að hann kom fyrir í Næturvaktinni fyrir nokkrum árum.

„Fyrir nokkrum árum þótti einhverjum þetta voðalega fyndið því þetta kom fram í Næturvaktinni og voru unglingarnir fljótir að tileinka sér þennan orðaforða. Ég hélt í alvöru að við værum komin aðeins lengra,“ skrifaði Unnur Helga og varpaði síðan fram spurningu: „Getur einhver útskýrt fyrir mér hvað þýðir að vera korter í Downs? Ég veit það ekki en ég veit hvað Downs heilkenni er.“

Í atriðinu sem um ræðir deila tveir mannræningjar með lambúshettur um kunnáttuleysi félaga í hryðjuverkasamtökunum Hamar Þórs þegar kemur að mannránum og sá sem greinilega allt þykist vita hreytir þessum orðum í félaga sinn: „Ég skil þetta með Skúla. Hann er svona kortér í Downs. En ég hélt í alvöru talað að það væru þarna tvær heilasellur í hausnum á þér.“

Sandra Björg Steingrímsdóttir er móðir lítils drengs með Downs-heilkennið og hún ávarpar handritshöfunda Ófærðar í stöðuuppfærslu sinni á Facebook og bendir þeim á að nóg sé um fáfræði og fordóma í samfélaginu þótt þeir leggist ekki á árarnar.

Stuðlað að fordómum

„Kæru handritshöfundar Ófærðar!  Þið valdið miklum vonbrigðum. Í þætti 4 sem sýndur var á RÚV í gær heyrði ég setningu sem gerði mig kjaftstopp,“ skrifar Sandra Björg og vísar til ofangreindrar setningar sem er „sögð í niðrandi tilgangi um manneskju.“ Hún spyr í framhaldinu hvort þeim hafi, af öllum mögulegum setningum, „þessi vera mest viðeigandi?!?“

Hún víkur síðan að syni sínum, Emil Daða, dásamlegum gleðigjafa sem er „fullkominn alveg eins og hann er og mér mislíkar að hann og hans heilkenni sé umtalað á þennan hátt.“ Hún segist í lokin hafa haldið að „við værum komin lengra en þetta á árinu 2019!“ 

Ylfa Thordarson, stígur einnig fram á Facebook sem móðir Elínar Söru, „lítillar yndislegrar stúlku með Downs,“ og segir henni hafa sárnað að heyra að aðstandendur Ófærðar hafi „ákveðið að stuðla að áframhaldandi fordómum um Downs,“ með þessari setningu. „Er í raun orðlaus þar sem ég hélt í hjarta mínu að við værum komin á betri stað.“

Ylfa bætir við að þetta skipti máli þar sem orð særa. Og hvetur til þess að fólk sýni gott fordæmi. „Ég trúi því innilega að við getum gert betur. Við getum saman stuðlað að þjóðfélagi sem sýnir umburðarlyndi, ást og fagnar fjölbreytileikanum.