Heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi eru á viðbúnaðarstigi eftir að reglubundið eftirlit leiddi til þess að ummerki um mænusótt fundust í skólpi í Norður og Austur London.

Það var í Beckton-skólphreinsistöðinni í Newham sem merki um sjúkdóminn fundust í febrúar en fleiri sýni hafa reynst jákvæð síðan þá.

Enginn hefur enn greinst með sjúkdóminn og er hætta gagnvart almenningi ekki talin mikil en yfirvöld benda fólki á að athuga hvort ekki séu allir á heimilinu bólusettir gegn sjúkdómnum.

„Mænusótt getur farið í dreifingu meðal almennings, sérstaklega hjá hópum þar sem bólusetning er með minna móti,“ sagði Vanessa Saliba, smitsjúkdómafræðingur hjá heilbrigðiseftirliti Bretlands. „Í sjaldgæfum tilfellum getur sjúkdómurinn valdið lömun hjá þeim sem ekki eru bólsettur,“ sagði Vanessa.

Talið er líklegast að einstaklingur sem sneri aftur til Bretlands eftir ferðalög og hafði tekið bóluefni gegn sjúkdómnum munnlega hafi borið veiruna áfram í skólpvatnið. Fólk sem tekið hefur bóluefni gegn mænusótt með þessum hætti getur borið leifar af sjúkdómnum í líkamanum nokkrum vikum eftir inntöku.

Bóluefni við mænusótt er oft gefið munnlega.
Mynd/getty

Mænusótt, sem einnig nefnist lömunarveiki, er veirusýking sem berst manna á milli einkum með saurgerlum sem komast í snertingu við munn og meltingarveg. Algengast er að mænan bíði skaða vegna sjúkdómsins sem leiðir þá til lömunar.