Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, ráðlagði í síðustu viku einstaklingi, sem sagðist ekki hafa efni á því að fara í Klíníkina í Ármúla í liðaskiptaaðgerð, að fara til útlanda í aðgerð. „Það er ömurlegt að segja við mann að fara til útlanda og það kostar þrisvar sinnum meira,“ sagði Guðmundur í ræðustól á Alþingi.

Guðmundur var þar til að ræða biðlista í heilbrigðiskerfinu. Sagði hann að biðlistarnir sköðuðu fólk andlega og líkamlega svo það byði varanlegan skaða af.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra sagðist binda vonir við vinnu aðgerðahóps sem hann skipaði á dögunum. Þessum hóp var falið að ná heildrænt utan um þá áskorun sem felst í að stytta biðlista eftir liðskiptaaðgerðum.