Varhugavert er að útiloka upplýsingar sem maður er ekki sammála, segir Amund Trellevik, meðlimur í PEN, alþjóðasamtökum sem berjast fyrir tjáningarfrelsi. Þetta kemur fram í viðtali Norska ríkisútvarpsins við Trellevik.

Evrópusambandið ákvað að loka fyrir útsendingar rússnesku sjónvarpsstöðvanna Russia Today og Sputnik í löndum sínum, á þeim grunni að þær væru áróðursstöðvar sem dreifi falsfréttum um stríðið í Úkraínu.

Sagt er að norska ríkisstjórnin sé að íhuga að fylgja fordæmi Evrópusambandsins. Trellevik segir skiljanlegt að slík útilokun sé rædd en kveðst telja að Noregur verði að standa við eigin gildi. „Ef það er eitthvað sem ekki má falla þá eru það grunngildin,“ er haft eftir honum.