Hjálmar Hall­gríms­son, vett­vangs­stjóri lög­reglunnar á Suður­nesjum, mælir gegn því að fólk fari á gos­stöðvar í dag. Hann segir að­stæður afar slæmar vegna veðurs.

Hálka er nú á Suður­strandar­vegi, skaf­renningur á gossvæðinu auk þess sem hvasst er í veðri og fimm stiga frost. „Það eru á­byggi­lega svona 13 til 14 metrar á sekúndu úti og ískalt,“ segir Hjálmar sem segir að­stæður einungis fyrir þá allra vönustu.

Hjálmar segir að nú sé ró­legt á gos­stöðum. Um fjórir bílar hafi mætt þangað í morgun þegar opnaði klukkan 06:00. Þar hafi hins­vegar verið vanir fjall­göngu­garpar á ferð, vel búnir og segir Hjálmar það eina í stöðunni. Betri spá sé á morgun.

Björgunar­sveit auk lög­reglu mun fylgjast vel með svæðinu í dag. Áður hefur komið fram að gasmengunar muni lík­lega gæta í Grinda­vík í dag. Þá segir Hjálmar að í gær hafi þurft að rýma gossvæðið vegna gasmengunar. Það hafi gengið vel, án nokkurra vand­ræða.