Á Íslandi eru að minnsta kosti tólf Mælifell sem öll eiga sameiginlegt að vera keilulaga og því auðþekkjanleg í landslaginu. Ferðamenn hafa því löngum nýtt þau til að rata og fyrr á öldum voru þau mikilvæg eyktarmerki. Stórfenglegast af Mælifellunum tólf er vafalítið Mælifell á Mælifellssandi, milli Mýrdalsjökuls og Torfajökuls, enda nánast fullkomlega keilulaga. Þetta er gamalt eldfjall sem myndaðist við gos undir jökli en er nú mosavaxið frá toppi til táar. Það minnir því á egypska Keopspíramídann klæddan ljósgrænum sparifötum. Hæsti tindurinn er 791 m hár og þótt hann gnæfi ekki nema 200 m yfir eyðimörkina í kring er útsýnið mikilfenglegt, eins og yfir norðanverðan Mýrdalsjökul, Tindfjöll, Háskerðing, Strút og upptök Hólmsár.

Leiðin yfir Mælifellssand frá Fljótshlíð og austur í Skaftártungur liggur fram hjá Mælifelli og kallast Fjallabaksleið syðri. Í dag er hún tiltölulega fáfarin en fyrr á öldum var þetta þjóðleið milli Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu og kallaðist Miðvegur, enda fljótfarnari en þegar komast þurfti yfir stóru jökulárnar við suðurströndina. Í Njálssögu segir að hér hafi Flosi Þórðarson farið með liði sínu í aðförina að Njáli á Bergþórshvoli.

Mælifellssandur getur verið mikið veðravíti en veturinn 1868 urðu fjórir Skaftfellingar úti skammt frá Mælifelli og heitir þar Slysaalda. Vakti atburðurinn mikinn óhug því þrátt fyrir mikla leit fundust líkin ekki fyrr en mörgum árum síðar. Á svipuðum slóðum brotlenti þyrla að vetri til og urðu báðir mennirnir úti þegar þeir reyndu að komast til byggða. Flestar ár á Fjallabaksleið syðri eru tiltölulega auðveldar yfirferðar fyrir vel útbúna jeppa en þegar komið er að fjallinu úr austri er oft saklaus aurbleyta á sandinum. Hólmsá getur hins vegar verið varasöm í vatnavöxtum.

Uppgöngustaðurinn á Mælifell er sunnan við fjallið við akveginn, og tekur tæpa klukkustund að ná tindinum. Gangstígur liggur upp fyrsta hlutann og er mikilvægt að fylgja honum til að skemma ekki viðkvæman gróðurinn. Þegar komið er að klettabeltinu ofarlega í fjallinu er mikilvægt að halda ekki beint í norður, heldur sveigja undir klettana til austurs og komast þannig mun auðveldari leið á tindinn. Ekki þarf annan útbúnað en góða gönguskó og eftir gönguna er tilvalið að skella sér í Strútslaug skammt frá og gista síðan í snotrum skála Útivistar við Strút. Annar valkostur er skáli Ferðafélags Íslands í ægifögru Hvanngili, aðeins vestar.