Kópavogsbær hlaut í dag alþjóðleg hvatningarverðlaun UNICEF fyrir mæla­borð sem ætlað er að tryggja betri yfir­sýn yfir vel­ferð barna á Ís­landi. Verðlaunin hlutu þau fyrir fram­úr­skarandi lausnir og ný­sköpun í nær­um­hverfi barna. Verð­launin voru af­hent á stórri ráð­stefnu UNICEF um inn­leiðingu barna­sátt­málans í sveitar­fé­lögum sem haldin er í Köln í Þýska­landi.

Mæla­borðið var þróað af Kópa­vogs­bæ í sam­vinnu við fé­lags­mála­ráðu­neytið og UNICEF á Ís­landi en sam­starfs­samningur þess efnis var undir­ritaður í júní síðast­liðinn og er hluti af heildar­endur­skoðun á þjónustu við börn og ung­menni sem stjórn­völd standa fyrir.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, er staddur í Köln og var viðstaddur þegar Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, tók við verðlaununum ásamt fulltrúum Kópavogs.

„Ég hef haft sterka sann­færingu fyrir því að með breyttum vinnu­brögðum og aukinni sam­vinnu getum við náð fram byltingu þegar kemur að mál­efnum barna á Ís­landi. Það er mjög á­nægju­legt að eitt af þeim sam­vinnu­verk­efnum sem lögð hefur verið á­hersla á í þessari veg­ferð sé að fá stóra al­þjóð­lega viður­kenningu. Það gefur okkur byr í seglin og sýnir að við erum á réttri leið,” segir Ás­mundur Einar í til­kynningu.

Ná fram betri mynd af stöðu barna með mælaborðinu

Með mæla­borðinu er hægt að safna töl­fræði­gögnum og greina þau. Til­gangur þess er að ná fram betri mynd af al­mennri stöðu barna í sam­fé­laginu hverju sinni og beina sjónum stjórn­valda að verk­efnum sem brýnt er að takast á við og for­gangs­raða. Fyrstu drög að mæla­borðinu voru kynnt á ráð­stefnunni Breytingar í þágu barna sem haldin var á vegum fé­lags- og barna­mála­ráð­herra 2. októ­ber síðast­liðinn. Þar kom skýrt fram að með mæla­borði megi tryggja rétta stýringu að­gerða í þágu barna og þar með betri nýtingu fjár­muna. Vonir standa til þess að í náinni fram­tíð muni það geta nýst hverju og einu sveitar­fé­lagi og þar með landinu öllu.

Hluti af innleiðingu Barnasáttmálans í Kópavogi

„Mæla­borð barna er verk­efni sem við erum gríðar­lega stolt af hjá Kópa­vogs­bæ og mjög á­nægju­legt að það hljóti al­þjóð­lega viður­kenningu UNICEF. Kópa­vogs­bær hefur lagt á­herslu á mál­efni barna og barna­verndar og vinnur nú að inn­leiðingu Barna­sátt­mála SÞ hjá bænum. Mæla­borðið er hluti af þeirri inn­leiðingu og frá­bært að fá verð­laun sem öðrum þræði eru viður­kenning á metnaðar­fullri inn­leiðingu hans. Mark­miðið með mæla­borðinu er að við getum for­gangs­raðað enn betur í þágu barna og vonandi mun það nýtast sem víðast, innan­lands sem utan,“ segir Ár­mann Kr. Ólafs­son, bæjar­stjóri Kópa­vogs í til­kynningu.

Hvatningar­verð­laun Barn­vænna sveitar­fé­laga eru veitt af UNICEF til góðra verk­efna sem eru brauðryðjandi og hafa það að mark­miði að gera réttindum barna hátt undir höfði og bæta dag­legt líf barna og ung­menna í borgum og bæjum. Til að hljóta til­nefningu til verð­launanna þurftu sveitar­fé­lög að upp­fylla á­kveðin skil­yrði, eins og að sýna fram á árangur verk­efnis og að þau séu skapandi. Þá var þess einnig krafist að í þeim fælist ein­hvers konar ný­sköpun og að það væri hægt að fram­kvæma verk­efnið annars staðar með svipuðu sniði.

„Við erum í skýjunum yfir þessari góðu viður­kenningu. Við vissum að þetta væri mikil­vægt og þarft verk­efni til að bæta réttindi barna í efna­meiri löndum, eins og Ís­landi. Nú höfum við fengið stað­festingu á því að um­heimurinn hefur líka á­huga. Við hjá UNICEF óskum Kópa­vogs­bæ og Fé­lags- og barna­mála­ráðu­neytinu hjartan­lega til hamingju og okkur hlakkar til að vinna verk­efnið á­fram í góðu sam­starfi,“ segir Berg­steinn Jóns­son, fram­kvæmda­stjóri UNICEF á Ís­landi, í til­kynningu frá sam­tökunum.

Lista yfir sigurvegara hvers flokks má sjá hér fyrir neðan:

  • Non-discrimination and equity:  Oviedo, Spáni.
  • Meaningful child participation:  Vinnytsia (Úkraínu) and Ho Chi Minh (Víetnam)
  • Child friendly social services:  Sharjah, Sameinuðu Arabísku furstadæmin
  • Secure, safe and clean environments:  Mislata, Spáni
  • Family life, play and leisure:  Kriens, Sviss.
  • Child friendly governance:  Kópavogur, Íslandi

Nánar má lesa um verkefnið hér: Upplýsingakerfi sem tryggir velferð barna