Í Bret­landi er á­ætlað að allir yfir 50 ára fái auka bólu­setningu í haust. Búist er við verri flensu­tíð en áður næsta haust sem þýðir að þörf verður á auka­vörn gegn CO­VID. Greint er frá þessu á vef breska ríkis­út­varpsins.

Þar kemur fram að um 30 milljónir manna, sem eru talin í á­hættu­hópi, eigi að fá þriðju sprautuna. Í þeim hópi eru allir eldri en 50 ára og þau sem yngri eru sem falla í þann hóp.

Talið er að með því að gefa fólki þriðju sprautuna sé hægt að verja þau betur fyrir CO­VID-19 og stökk­breyttum af­brigðum þess.

Land­læknir Eng­lands, prófessor Jon­a­t­han Van-Tam, segir í sam­tali við BBC að með þessu sé hægt að koma í veg fyrir minnkandi virkni bólu­efnanna, sér­stak­lega yfir haust- og vetrar­tímann. Hann á von á því að aðrar flensur komi aftur í vetur.

„Við þurfum að tryggja vörn gegn flensunni, auk þess að við­halda vörn gegn CO­VID-19,“ segir hann.

Þriðja sprautan viðhaldi frelsinu

Heil­brigðis­ráð­herra landsins segir að fyrstu sprauturnar séu til að tryggja að í­búarnir fái frelsi sitt aftur og að þriðja sprautan eigi að við­halda því.

Frá og með septem­ber 2021 er mælt því að allir 16 ára og eldri sem eru með ó­næmis­bælingu og í við­kvæmum hópi fái þriðju sprautuna. Þá er einnig mælt með því að í­búar hjúkrunar­heimila fái hana og að allir yfir 70 ára og fram­línu­starfs­fólk í fé­lags- og heil­brigðis­geiranum fái þriðju sprautuna.

Á eftir þeim eru það allir yfir 50 ára og þeir sem eru í á­hættu­hópi fyrir flensu eða CO­VID-19 sem eru yngri. Þá eru einnig í þeim hópi þau sem búa með þeim sem eru ó­næmis­bæld.

Þessum sömu hópum stendur svo til boða að fá ár­lega flensu­sprautu og er þeim einnig ráð­lagt að fá hana.

Þar sem margir aðrir eru að fá seinni sprautuna seint í sumar í Bret­landi verða þau ekki partur af þessu en í frétt BBC segir að sú á­kvörðun verði endur­skoðuð síðar.