Sóttvarnaráð Kanada mælir nú með því að nota alltaf mRNA bóluefni, eins og Pfizer eða Moderna, þegar kostur gefst. Mælt er með því að þeir sem hafa fengið AstraZeneca í fyrri bólusetningu fái frekar Pfizer eða Moderna í seinni bólusetningu.

Meðmælin eru sögð byggja á rannsóknum sem gefi til kynna betri virkni af því að blanda bóluefnunum saman auk þess að minnka áhættu af því að fá VITT, bóluefnasjúkdóm sem veldur blóðtöppum. Vert er að nefna að sjúkdómurinn er mjög sjaldgæfur.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir þetta hafa verið í umræðunni lengi en að engin ástæða sé til að breyta ráðleggingum hér á landi. „Rannsóknir hafa sýnt að verndin sé mjög góð af þessum bóluefnum sem við erum að nota, sérstaklega ef við náum fullri bólusetningu, það er aðalmálið,“ segir hann.

„Við höfum ákveðið að fara ekki þessa leið,“ segir Þórólfur. „Við höfum lagt á það áherslu að halda áfram og klára með þeim bóluefnum sem er byrjað á ef þess er nokkur kostur.“

Þórólfur bendir á að aukaverkanir séu oft meiri hjá þeim sem blanda saman bóluefnum. „Ónæmissvarið er sennilega kröftugra en það er ekkert víst að vörnin sé eitthvað betri fyrir vikið,“ segir hann.

Hann segir að ákveðinn hópur muni ekki fá seinni sprautuna með AstraZeneca vegna ráðlegginga um það bóluefni sem hafa komið fram.

„Það er bara þannig að það eru alltaf einhverjar aukaverkanir af bóluefnunum og þær eru mjög sjaldséðar og ef maður vegur það á móti aukaverkunum af Covid sýkingunni þá eru þær margfalt minni af bólusetningu,“ segir Þórólfur.

„Við höfum bara um tvo kosti að ræða í þessum faraldri, annað hvort að koma okkur út úr honum með bólusetningum eða að fá Covid. Það er ekkert millistig í því,“ segir Þórólfur.