Lyfjastofnun Evrópu, EMA, hefur nú mælt með bóluefni AstraZeneca og Oxford háskóla en sérfræðinganefnd EMA um lyf fyrir menn, CHMP, komst að þessari niðurstöðu fyrr í dag og var hún kynnt rétt í þessu.

Evrópusambandið mun síðan þurfa að veita bóluefninu skilyrt markaðsleyfi en tvö önnur bóluefni hafa þegar fengið markaðsleyfi, annars vegar bóluefni Pfizer og BioNTech, og hins vegar bóluefni Moderna. Bretar eru þeir einu sem hafa þegar veitt bóluefni AstraZeneca markaðsleyfi.

„Með þessu þriðja jákvæða áliti höfum við stækkað birgðir okkar af bóluefnum sem eru aðgengileg fyrir meðlimaþjóðir ESB og EES til að berjast gegn faraldrinum og vernda borgara,“ segir Emer Cooke, æðsti yfirmaður Lyfjastofnunar Evrópu, í tilkynningu um málið.

Ólga vegna framleiðslutafa

Miklar samningsviðræður hafa verið í gangi milli AstraZeneca og Evrópusambandsins síðustu daga eftir að lyfjafyrirtækið greindi frá því að vegna framleiðsluörðugleika í Evrópu væri aðeins hægt að afhenda um þriðjung þeirra skammta sem samið var um í upphafi.

Alls átti Evrópusambandið að fá 100 milljón skammta á fyrsta ársfjórðungi en ljóst er að þau muni aðeins fá um 25 milljón skammta á tímabilinu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins birti fyrr í dag samninginn en deilt er um hvort samningurinn sé bindandi.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, fullyrðir að samningurinn sé bindandi og hefur kallað eftir útskýringum frá AstraZeneca. Þá er óskað eftir því að skammtar sem áttu að fara til Bretlands séu notaðir til að bæta upp fyrir tafirnar en AstraZeneca segir samning þeirra ekki leyfa það.

Evrópusambandið hefur nú tilkynnt að eftirlit verði með útflutningi bóluefnis innan sambandsins vegna málsins.