Margaret Anne Johnson segir íslenskt samfélag meina konum að upplifa, og tjá sig, um eftirsjá í tengslum við barneignir.

„Samfélagið gerir ráð fyrir að það sé ekki hægt að sjá eftir því að eignast barn, sá möguleiki er ómögulegur í augum flestra,“ ítrekar Margaret, sem rannsakar móðurhlutverkið ásamt Gyðu Margréti Pétursdóttur kynfræðingi.

„Flestir virðast halda að mæður sem upplifi eftirsjá eftir barneignir séu einhvers konar skrímsli sem hati börnin sín.“ Það sé þó fjarri lagi.

„Það er ekki þannig að mæður sjái eftir sínum eigin börnum, heldur sjá þær eftir því að hafa orðið mæður vegna móðurhlutverksins,“ segir Margaret. Hlutverkinu fylgi ábyrgð og álag sem vegi þungt á herðum mæðra, sem upplifi jafnvel að þær séu ekki starfinu vaxnar.

Í rannsókninni hafa þær Marga­ret og Gyða rætt við átta íslenskar konur sem segjast sjá eftir því að hafa orðið mæður. Einnig styðjast þær við erlendar rannsóknir.

„Það hefur ekki einn einasti þátttakandi lýst því að finna eitthvað annað en ást í garð barna sinna,“ segir Margaret. Það sé þó erfitt fyrir konurnar að viðurkenna að þær upplifi eftirsjá.

„Þær konur sem gera það uppskera iðulega mikla fordóma og óttast það jafnvel að vera tilkynntar til Barnaverndarstofu sem óhæfar mæður,“ segir Margaret alvarleg. Samfélagið sé enn á móti því að taka þessa umræðu.

„Það er stöðugt talað um að barneignir séu val kvenna og þess vegna megi ekki sjá eftir þeim.“

Hart sótt að konum sem velja barnlaust líf

Þegar rýnt er í samfélagsumræðuna kemur þó í ljós að hart er sótt að konum sem velji barnlaust líf.

„Það er langlíf mýta í samfélaginu að það sé eitthvað verulega mikið að hjá konum sem vilja ekki eignast börn, þar af leiðandi má auðvitað ekki tala um að sjá eftir því að hafa gert það.“ Umrætt val liggi því ekki beint fyrir.

Einnig sé vinsælt stef að halda því fram að konur muni sjá eftir því að eignast ekki börn, frekar en hitt. „Það er ennþá gert ráð fyrir því að líffræðileg örlög allra kvenna séu þau að verða mæður.“

Konur sem tóku þátt í rannsókninni lýsa því margar að hafa látið undan þrýstingi um að eignast barn. Þeim hafi verið lofað gulli og grænum skógum þegar barnið myndi koma í heiminn en hafi aldrei fundið sig í móðurhlutverkinu.

Móðurhlutverkið fórn á eigin lífi

Einn þátttakandi lýsti móðurhlutverkinu sem fórn á eigin lífi: „Ég hélt að líf mitt væri búið þegar dóttir mín fæddist. Ég hafði enga orku fyrir neitt annað en hana.“

Önnur lýsti því að elska börn sín meira en allt í heiminum, en að hlutverkið væri henni um megn.

„Einhver sagði líka að það hefði verið fullkomið að fá föðurhlutverkið.“ Þannig hefði verið hægt að losna við líkamlegar skyldur og samfélagslegan þrýsting.

Það er nauðsynlegt að opna þessa umræðu og hætta að þagga niður í konum að mati Margaretar, sem leitar enn að fleiri þátttakendum fyrir doktorsrannsóknina.

„Það er alveg ljóst að það eru fleiri mæður sem hafa upplifað álíka tilfinningar og okkur langar mikið að ræða við þær,“ Margaret Anne Johnson.