Franska ríkið hefur vanrækt skyldu sína og ekki gert nóg til að minnka loftslagsmengun í París samkvæmt niðurstöðu dóms sem féll í gær. Dómurinn er sá fyrsti sinnar tegundar og var sigur fyrir mæðgur sem höfðu kært franska ríkið vegna öndunarvandamála.

Mæðgurnar Farida, 52 ára, og sextán ára dóttir hennar kærðu franska ríkið vegna áhrifa loftslagsmengunar á heilsu þeirra, en þær búa í Saint-Ouan í návígi við hringveg Parísar.

Farida segist hafa barist við öndunarvandamál í mörg ár. „Ég var endurtekið með bronkítis en sýklalyfin sem læknarnir gáfu mér hjálpuðu ekki“ segir hún. Hún lýsir því einnig að dóttir hennar hafi verið með bronkítis sem barn og seinna alist upp með asma.

Öndunarvandamál beintengd loftslagsmengun

Farida var send til lungnasérfræðings og komst þar að því að vandamál hennar væru beintengd loftslagsmengun. Lungnasérfræðingurinn ráðlagði henni að flytja með dóttur sína frá menguðu lofti Parísar. Mæðgurnar fluttu seinna til Orléans þar sem öll einkenni sjúkdóma þeirra hurfu.

Í niðurstöðu dómsins er ríkið fundið sekt fyrir að hafa gripið til ófullnægjandi ráðstafana varðandi loftslagsgæði. Einnig er tekið fram að á árunum 2012-2016 hafi ríkinu mistekist að bregðast við mengandi lofttegundum, sem fóru yfir leyfilegt hámark.

67 þúsund manns deyja árlega vegna loftslagsmengunar í Frakklandi

Þetta er í fyrsta skipti sem einstaklingar leita réttar síns í slíku máli í Frakklandi. Lögmaður mæðgnanna, Francois Laffourge, segir að héðan í frá muni ríkið þurfa að framkvæma áþrifameiri aðgerðir í baráttu sinni við loftslagsmengun. Hún segir að fórnarlömb lofslagsmengunar geti fagnað þessum dómi.

„Þetta er sögulegur dómur fyrir þá 67,000 franska borgara sem deyja fyrir aldur fram á hverju ári vegna loftslagsmengunar“ segir Nadir Saïfi, varaforseti Ecology without Borders í samtali við Le Monde. Hann hvetur einnig fórnarlömb loftslagsmengunar til að vera ekki hrædd við að sækja rétt sinn og verja heilsu sína.