Mæðgur sem rækta schäfer hunda hafa verið sakaðar um ræktunarsvindl og að skrá eigendaskipti á tík sem hafði verið aflífuð nokkru áður. Skráningin veitti sambýlismanni dótturinnar atkvæðisrétt á aðalfundi Schäfer-deildar Hundaræktarfélags Íslands.

Í bráðabirgðaúrskurði siðanefndar Hundaræktarfélagsins kemur fram að ræktendur skráðu vísvitandi ranga ræktunartík á þrjú pörunarvottorð í umsókn um ættbókarskráningu tiltekinna gota.

Sömuleiðis höfðu ræktendur brotið gegn skyldum sínum með því að mæta ekki með hunda úr ræktun sinni til sýnatöku til sönnunar á ætterni.

Máli ræktandans sem um ræðir gegn Hundaræktarfélagi Íslands og fulltrúum siðanefndar félagsins var vísað frá Héraðsdómi Reykjavíkur. Ræktendur gerðu frávísunarkröfu á dóm siðanefndar þar sem stefnendur voru meðal annars útilokaðar frá allri þátttöku í störfum Hundaræktarfélags Íslands og ræktunarstörfum í tengslum við félagið í þrjá mánuði.

„Stefnendur hefðu einnig neitað að gefa upplýsingar og svarað fyrirspurnum framkvæmdastjóra með útúrsnúningum,“ kemur fram í dómi Héraðsdóms.

Hundasveitin leitaði að Jago.

Leitin að Jago tortryggileg

Leitin að Schäfer hundinum Jago, sem er í eigu mæðgnanna, hefur vakið mikla athygli í hundasamfélaginu á Íslandi.

Margir komu að leitinni eða buðu fram aðstoð en leit var að lokum hætt án skýringa og hundurinn að lokum merktur sem látinn á síðu hundaræktarinnar. Tveir meðlimir Hundasveitarinnar, sem Fréttablaðið ræddi við, telja eitthvað tortryggilegt hafa átt sér stað.

Ætluðu að para við tík sem var ekki ættbókarfærð

Hundurinn Jago hafði undanfarin tvö ár búið hjá öðrum aðila en skráðum eiganda, svokölluðum fóðuraðila. Skömmu áður en hann hvarf átti hann að fara í DNA sýnatöku til að sanna faðerni hans í goti sem hann var skráður fyrir, að sögn meðlima Hundasveitarinnar.

Sama dag og Jago átti að fara í sýnatökuna fékk fóðuraðilinn símtal frá skráðum eiganda hundsins þar sem honum var tjáð að það þyrfti að koma og sækja hundinn og fara með hann til Akureyrar að para við tík. Skömmu seinna var komið að sækja hundinn. Hann fór aldrei í sýnatökuna og í dómi Héraðsdóm kemur fram að tíkin, sem ræktendur ætluðu að para Jago við, hafi ekki verið ættbókarfærð hjá félaginu.

Leituðu í sex klukkutíma

Fjórum dögum seinna tóku meðlimir Hundasveitarinnar þátt í leitinni þegar tilkynning barst frá skráðum eiganda á Facebook-hóp um hvarf hundsins. Jago hafði horfið á Holtavörðuheiðinni á leiðinni aftur til Reykjavíkur, skömmu fyrir miðnætti í mars síðastliðnum. Fjórir meðlimir sveitarinnar tóku þátt í leitinni fyrstu sex klukkutímana eftir hvarfið og voru með lóðatík meðferðis.

Haft var samband við eigandann og spurt um staðsetningar og áttir. Þeim fannst svörin þó vera frekar fálátleg. Ekki var hægt að ræða við manneskjuna sem var að keyra hundinn frá Akureyri til Reykjavíkur þegar hann týndist en hún talar hvorki ensku né íslensku að sögn eigandans.

Fóðuraðilanum barst ekki tilkynning um hvarf hundsins frá skráðum eiganda heldur sá færslu um hvarfið á Facebook, að sögn meðlima Hundasveitarinnar. Fóðuraðilinn tjáði meðlimum sveitarinnar að hann hafi ítrekað beðið um að vera skráður eigandi Jago en að aldrei hafi orðið við þeirri ósk.

Telja eigandann ekki vilja finna hundinn

Meðlimir Hundasveitarinnar, sem Fréttablaðið ræddi við, upplifðu að skráður eigandi Jago hafi jafnvel ekki viljað finna hundinn. Erfiðlega hafi gengið að fá upplýsingar um hvarfið og aðstoð í sumum tilvikum afþökkuð. Þá hafi áhyggjufullu hundasamfélagi aldrei borist tilkynningar um það hvort hundurinn hafi fundist eða ekki.

Einn meðlimur Hundasveitarinnar fékk svar frá skráðum eiganda Jago að hann hafi fundist fyrir nokkru síðan, eftir ítrekaðar fyrirspurnir. Í dag er hann merktur látinn á síðu hundaræktandans en hann var fæddur árið 2013.

Hundasveitin er sjálfboðaliðahópur sem leitar að týndum hundum. Meðlimir sveitarinnar sem Fréttablaðið ræddi við segjast ósáttir við það að starfið sé mögulega misnotað í óheiðarlegum tilgangi.