Karlmaður á þrítugsaldri sem talinn er hafa banað nágranna sínum við Barðavog í síðdegis í gær hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 1. júlí næstkomandi.

Er það gert á grundvelli almannahagsmuna að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á manndrápinu, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu.

Lögreglan fékk tilkynningu yfirstandandi líkamsárás um hálf átta í gærkvöldi fyrir utan hús við Barðavog.

Þegar lögreglan og sjúkralið komu á vettvang var maðurinn meðvitundarlaus og andaði ekki.

Endurlífgunartilraunir hófust strax en báru ekki tilætlaðan árángur. Sakborningur var á staðnum og var handtekinn um leið og fluttur á lögreglustöð.

Hann og hinn látni voru nágrannar en ekki er talið að mennirnir tengist að öðru leyti.

Greint hefur verið frá því að lögreglan hafi að minnsta kosti tvívegis verið kölluð út vegna hins grunaða síðasta sólarhringinn áður en hann á að hafa ráðist á nágranna sinn og orðið honum að bana.

Þá hefur verið greint frá því að hinn látni hafi verið fæddur árið 1975 og meintur gerandi árið 2001.