Karlmaður sem var stunginn með hníf fyrir utan veitingastaðinn Fjallkonuna við Ingólfstorg síðustu helgi er á batavegi. Þetta staðfestir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við Fréttablaðið.

Árásin átti sér stað á öðrum tímanum aðfaranótt sunnudags. Maðurinn sem var stunginn var fluttur á sjúkrahús með alvarlega áverka og hefur verið haldið sofandi á gjörgæsludeild Landspítalans.

Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn í heimahúsi í Kópavogi og situr nú í gæsluvarðhaldi og rannsókn lögreglu miðar vel. Hafa þau rætt við fjölda vitna og yfirfarið myndefni úr eftirlitsmyndavélum í miðbænum. Von er á tilkynningu frá lögreglu um þróun rannsóknar og mögulega tengingu við bílabruna um helgina.

Hnífur fannst hjá bílnum í Árbæ

Lögregla greindi upphaflega frá því að rannsókn þeirra beindist einnig að bílabruna. Líkt og Fréttablaðið greindi frá voru tveir bílabrunar aðfaranótt sunnudags, bæði í Kópavogi og í Árbæ en Grímur sagði í samtali við Vísi að bruninn í Árbænum tengdist málinu ekki.

Silja Ragnarsdóttir, eigandi bílsins sem brann í Árbæ segir að lögregluþjónn hafi fundið hníf sem lá á götunni ekki langt frá bílnum hennar. Enn fremur var bíl í eigu handrukkara lagt við hliðina á bílnum hennar á bílastæðinu.

Grímur Grímsson segir lögregluna rannsaka bæði bílabrunann í Árbæ og í Kópavogi. „Það hefur orðið breyting á málinu frá því að það byrjaði. Það getur verið að báðir bílabrunar tengist þessu en þetta er til rannsóknar,“ segir Grímur.

Aðspurður um hnífinn segir Grímur að lögreglan hafi lagt hald á fleiri en tvo hnífa. Meðal annars var lagt hald á hníf í mið­bænum en ekki er vitað hvort það hafi verið vopnið sem var notað við á­rásina.

Bílabruninn í Árbæ.
Mynd: Silja Ragnarsdóttir