Brian Rob­son frá Wa­les var 19 ára gamall árið 1965, fastur í ó­hamingju­sömu starfi í Ástralíu og með mikla heim­þrá, þegar hann fékk snilldar­hug­mynd: Hann myndi póst­leggja sjálfan sig í kassa frá Mel­bour­ne til London. Brian, sem nú er 76 ára gamall, hefur skrifað bók um þessa svaðil­för sína sem nefnist The Crate Es­ca­pe og leitar nú að fé­lögum sínum, hinum írsku John og Paul, sem hjálpuðu honum að póst­leggja sjálfan sig fyrir 56 árum. BBC greinir frá.

Brian hafði komið til Ástralíu sem ung­lingur til að vinna hjá Victorian Railwa­ys lestar­kerfinu sem partur af að­lögunar­verk­efni fyrir inn­flytj­endur í Ástralíu. Hann var hins vegar mjög ó­á­nægður með starfið í Ástralíu en hafði skuld­bundið sig til að eyða tveimur árum í landinu og hefði þurft að endur­greiða ástralska ríkinu um 800 pund og borga sjálfur farið heim ef hann hefði ætlað að hætta við.

„Launin mín voru um það bil 30 pund á mánuði svo það var engin leið fyrir mig að gera það,“ segir Brian.

Það var þá sem Brian fékk þá hug­mynd að senda sjálfan sig með flug­pósti og leitaði hann hjálpar tveggja sam­starfs­fé­laga sinna, þeirra John og Paul, til að flýja Ástralíu. Paul átti nefni­lega rit­vél sem Brian þurfti að nota til að út­búa pappírs­vinnuna sem nauð­syn­leg var til að geta sent sjálfan sig í frakt. Fé­lagarnir voru eðli­lega séð nokkuð efins með þessa hug­mynd og tók það Brian viku að sann­færa þá um að hann væri ekki klikkaður.

„John var með mér alla leið en Paul vildi alls ekki gera þetta,“ segir Brian.

Vinirnir sam­mæltust að lokum um að hjálpa Brian undir þeim skil­yrðum að hann myndi halda nöfnum þeirra leyndum svo þeir myndu ekki lenda í vand­ræðum. John og Paul hjálpuðu Brian að koma sér fyrir í viðar­kassa sem var á stærð við lítinn ís­skáp. Með sér í ferða­lagið tók hann kodda, vasa­ljós, ferða­tösku og tvær flöskur; eina fyrir vatn og eina til að pissa í. Kassinn var svo lítill að Brian þurfti að sitja á grúfu og gat hvorki rétt úr fótunum né snúið sér við.

Brian leikur stellinguna sem hann sat í í kassanum.
Fréttablaðið/Getty

Langt og hættulegt ferðalag

Ferða­lagið reyndist hættu­legra en Brian bjóst við, því í stað þess að vera flogið beina leið til London eins og á­ætlað var, var farið miklu lengri og hægari leið í gegnum Los Angeles. Ferða­lagið tók fimm daga og var meðal annars milli­lent í S­yd­n­ey þar sem kassanum var snúið á hvolf svo Brian lá öfugur í ó­bæri­legri stöðu í rúma 22 tíma.

„Ég endaði loks í vöru­skemmu og hélt að ég væri staddur í London. Ég reyndi að hreyfa höndina til að teygja mig í vasa­ljósið en fingur mínir voru svo stífir að ég missti það,“ segir Brian.

Hann heyrði raddir fyrir utan kassann og það var greini­legt að ein­hverjir höfðu áttað sig á því að ekki var allt með felldu. Mennirnir töluðu hins vegar ekki með breskum hreim heldur banda­rískum.

„Einn þeirra kíkti í gegnum gat í kassanum og við horfðumst beint í augu. Hann stökk aftur á bak og sagði ‚Það er lík þarna‘,“ segir Brian.

Mennirnir hröðuðu sér á brott og í kjöl­farið fór allt í bál og brand. Kallað var í FBI, CIA, flug­vallar­lög­reglu og sjúkra­bíl. Brian hafði stirðnað upp í kassanum og var fluttur á sjúkra­hús þar sem hann endur­heimti hreyfi­getu sína smám saman. Hann var þó ekki kærður fyrir at­hæfið heldur sendur beint heim til London með flugi, í þetta sinn sem far­þegi en ekki far­angur.

Vill bjóða vinunum upp á drykk

Brian er núna 76 ára gamall og á gott líf og góða fjöl­skyldu og hann trúir því vart að hann hafi getað gert nokkuð jafn heimsku­legt eins og póst­leggja sjálfan sig.

„Þetta var al­gjör vit­leysa. Ef börnin mín myndu reyna þetta, þá myndi ég drepa þau. En þetta var annar tími,“ segir Brian.

Hann leitar nú að írsku fé­lögum sínum, þeim John og Paul, Brian segist hafa skrifað þeim bréf á sínum tíma en aldrei fengið svar.

„Ef ég gæti hitt þá aftur þá myndi ég bara vilja biðja þá af­sökunar fyrir að hafa flækt þá í þetta og segja þeim að ég saknaði þeirra eftir að ég kom heim. Ég væri líka til í að bjóða þeim upp á drykk,“ segir Brian.