Brian Robson frá Wales var 19 ára gamall árið 1965, fastur í óhamingjusömu starfi í Ástralíu og með mikla heimþrá, þegar hann fékk snilldarhugmynd: Hann myndi póstleggja sjálfan sig í kassa frá Melbourne til London. Brian, sem nú er 76 ára gamall, hefur skrifað bók um þessa svaðilför sína sem nefnist The Crate Escape og leitar nú að félögum sínum, hinum írsku John og Paul, sem hjálpuðu honum að póstleggja sjálfan sig fyrir 56 árum. BBC greinir frá.
Brian hafði komið til Ástralíu sem unglingur til að vinna hjá Victorian Railways lestarkerfinu sem partur af aðlögunarverkefni fyrir innflytjendur í Ástralíu. Hann var hins vegar mjög óánægður með starfið í Ástralíu en hafði skuldbundið sig til að eyða tveimur árum í landinu og hefði þurft að endurgreiða ástralska ríkinu um 800 pund og borga sjálfur farið heim ef hann hefði ætlað að hætta við.
„Launin mín voru um það bil 30 pund á mánuði svo það var engin leið fyrir mig að gera það,“ segir Brian.
Það var þá sem Brian fékk þá hugmynd að senda sjálfan sig með flugpósti og leitaði hann hjálpar tveggja samstarfsfélaga sinna, þeirra John og Paul, til að flýja Ástralíu. Paul átti nefnilega ritvél sem Brian þurfti að nota til að útbúa pappírsvinnuna sem nauðsynleg var til að geta sent sjálfan sig í frakt. Félagarnir voru eðlilega séð nokkuð efins með þessa hugmynd og tók það Brian viku að sannfæra þá um að hann væri ekki klikkaður.
„John var með mér alla leið en Paul vildi alls ekki gera þetta,“ segir Brian.
Vinirnir sammæltust að lokum um að hjálpa Brian undir þeim skilyrðum að hann myndi halda nöfnum þeirra leyndum svo þeir myndu ekki lenda í vandræðum. John og Paul hjálpuðu Brian að koma sér fyrir í viðarkassa sem var á stærð við lítinn ísskáp. Með sér í ferðalagið tók hann kodda, vasaljós, ferðatösku og tvær flöskur; eina fyrir vatn og eina til að pissa í. Kassinn var svo lítill að Brian þurfti að sitja á grúfu og gat hvorki rétt úr fótunum né snúið sér við.

Langt og hættulegt ferðalag
Ferðalagið reyndist hættulegra en Brian bjóst við, því í stað þess að vera flogið beina leið til London eins og áætlað var, var farið miklu lengri og hægari leið í gegnum Los Angeles. Ferðalagið tók fimm daga og var meðal annars millilent í Sydney þar sem kassanum var snúið á hvolf svo Brian lá öfugur í óbærilegri stöðu í rúma 22 tíma.
„Ég endaði loks í vöruskemmu og hélt að ég væri staddur í London. Ég reyndi að hreyfa höndina til að teygja mig í vasaljósið en fingur mínir voru svo stífir að ég missti það,“ segir Brian.
Hann heyrði raddir fyrir utan kassann og það var greinilegt að einhverjir höfðu áttað sig á því að ekki var allt með felldu. Mennirnir töluðu hins vegar ekki með breskum hreim heldur bandarískum.
„Einn þeirra kíkti í gegnum gat í kassanum og við horfðumst beint í augu. Hann stökk aftur á bak og sagði ‚Það er lík þarna‘,“ segir Brian.
Mennirnir hröðuðu sér á brott og í kjölfarið fór allt í bál og brand. Kallað var í FBI, CIA, flugvallarlögreglu og sjúkrabíl. Brian hafði stirðnað upp í kassanum og var fluttur á sjúkrahús þar sem hann endurheimti hreyfigetu sína smám saman. Hann var þó ekki kærður fyrir athæfið heldur sendur beint heim til London með flugi, í þetta sinn sem farþegi en ekki farangur.
Vill bjóða vinunum upp á drykk
Brian er núna 76 ára gamall og á gott líf og góða fjölskyldu og hann trúir því vart að hann hafi getað gert nokkuð jafn heimskulegt eins og póstleggja sjálfan sig.
„Þetta var algjör vitleysa. Ef börnin mín myndu reyna þetta, þá myndi ég drepa þau. En þetta var annar tími,“ segir Brian.
Hann leitar nú að írsku félögum sínum, þeim John og Paul, Brian segist hafa skrifað þeim bréf á sínum tíma en aldrei fengið svar.
„Ef ég gæti hitt þá aftur þá myndi ég bara vilja biðja þá afsökunar fyrir að hafa flækt þá í þetta og segja þeim að ég saknaði þeirra eftir að ég kom heim. Ég væri líka til í að bjóða þeim upp á drykk,“ segir Brian.