Maðurinn sem lögreglan í Noregi lýsti eftir í sumar í tengslum við Hagen-málið hefur gefið sig fram.

Maðurinn gaf sig fram til lögreglunnar í Lillestrøm í gærkvöld eftir að hafa séð sig eftirlýstan í fjölmiðlum. Hann hefur engin tengsl við hvarf Anne-Elisabeth Hagen. NRK greinir frá.

Maðurinn er norskur og á sextugsaldri. Hann býr í næsta nágrenni við torgið þar sem efirlitmyndavélarnar eru staðsettar.

Lögreglan lýsti eftir manninum þann 1. júlí síðastliðinn. Maðurinn sást á fjölda eftirlitsmyndavéla daginn sem Anne-Elisabeth hvarf frá heimili sínu, þann 31. október 2018 í nágrenni við Lørenskóg, skammt frá heimili Hagen hjónanna. Hann sást á myndavélum rúmri klukkustund eftir síðust lífsmerki Anne-Elisabeth.

Lögreglunni þótti grunsamlegt að maðurinn hafi ekki gefið sig fram fyrr, en tæpir fjórir mánuðir eru síðan að fyrst var lýst eftir manninum í fjölmiðlum.

Maðurinn útskýrði fyrir lögreglunni að hann hafi ekki séð tilkynninguna fyrr en í gær. Þá hafi hann sé myndirnar og áttað sig á því að hann væri maðurinn sem að lögreglan lýsti eftir.

Maðurinn tengist ekki málinu

Maðurinn hefur lagt fram gögn fyrir lögreglu sem sýna fram á hvað hann var að gera á umræddum stað daginn örlagaríka. Upplýsingar sem maðurinn veitti hafa einnig verið staðfestar af vitnum.

Lögreglan hefur í höndunum um 6.000 klukkustundir af myndefni úr eftirlitsmyndavélum tengt málinu.

SISTE:

Posted by NRK Nyheter on Thursday, 22 October 2020

Anne-Elisabeth Hagen hefur verið saknað í nærri tvö ár, en hún hvarf frá heimili sínu þann 31. október 2018. Eiginmaður hennar, auðkýfingurinn Tom Hagen var handtekinn í lok apríl. Hann var grunaður um að hafa orðið eiginkonu sinni að bana eða átt hlutdeild að dauða hennar. Hann hefur verið laus úr varðhaldi síðan í byrjun maí og neitar sök. Málið er enn í rannsókn hjá lögreglunni í Noregi og enn er verið að finna nýjar vísbendingar í málinu.