Dáni maðurinn þurfti áður að rasskastast til að hækka verð í gríð og erg

„Mér finnst það nú heilmikil tragedía að hann skuli vera dáinn maðurinn sem breytir verðinu á dælum bensínstöðvanna,“ segir Guðmundur Brynjólfsson nýbakaður doktor í bókmenntafræði, rithöfundur og kunnur pistlaskrifari.

Með ummælum sínum vísar Guðmundur með hnyttnum hætti til þess að olíufélögin hér á landi hafa verið eldsnögg að hækka bensínverð þegar innkaupaverð hækkar. En fyrir nokkrum dögum hríðféll verðið á heimsmarkaði. Sú lækkun hefur ekki skilað sér í vasa íslenskra neytenda.

„Auðvitað þarf það ekki að koma á óvart að svo hafi farið [að bensínmaðurinn hafi dáið] eins og ástandið hefur verið undanfarna mánuði, hann þurfti blessaður maðurinn að rassakastast á milli stöðva, stundum oft á dag,“ segir Guðmundur um verðhækkanir undanfarið í kjöfar innrásarinnar í Úkraínu.

„Og undir það síðasta var hann orðinn svo þjakaður af verðbólgu að hann hélt engu niðri, ekki einu sinni skýringum yfirmanna sinna á því hvers vegna álagið væri svona mikið - á honum og eldsneytinu.“