Maður var hand­tekinn í nótt eftir að í ljós kom að til­kynning hans til neyðarlínunnar um að maður hafi fallið í Ölfus­á væri gabb. Maðurinn, sem átti að hafa fallið í ána, var nafngreindur í símtalinu og fannst loks í felum í runna í ná­grenninu eftir nokkra leit. Hann hafði þá sjálfur hringt símtalið í neyðarlínu.

Oddur Árna­son, yfir­lög­reglu­þjónn á Suður­landi, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að málið sé al­var­legt. Maðurinn sé nú í skýrslu­töku hjá lög­reglu eftir að hafa gist fanga­geymslu og verður að öllum líkindum á­kærður fyrir gabbið.


Allir við­bragðs­aðilar í Ár­nesi voru ræstir út þegar út­kallið barst rétt eftir klukkan hálf eitt í nótt. Allar björgunar­sveitir Ár­nes­sýslu voru kallaðar út á­samt lög­reglu, sjúkra­flutninga­mönnum, og Bruna­vörnum Ár­nes­sýslu. Bátar voru sendir út í ána til leitar, göngu­hópar gengu með fram ár­bakkanum, leitað var úr lofti með drónum og notast við við hita­mynda­vél frá landi.


Oddur segir þó að lög­reglu hafi grunað að út­kallið væri gabb frá upp­hafi en getur ekki sagt til um hvers vegna. „Það var grunur um það frá upp­hafi að þetta væri gabb já,“ segir Oddur. „En við tökum enga sénsa í svona málum og allir voru sendir út. Við skoðuðum það meira að segja að fá þyrlu til leitarinnar en það var ekki gert vegna birtu­stigs.“


Hann segir að leitað hafi verið þar til maðurinn fannst í runna í ná­grenninu þar sem hann hafði falið sig og fylgst með að­gerðunum. Þegar hringt var inn og til­kynnt um að maður væri fallinn í Ölfus­á var sá sem átti að hafa fallið nafn­greindur. Reyndist sá maður vera í runnanum og hafði hann sjálfur hringt inn.


Hann fannst um klukkan hálf þrjú í nótt og hafði leitin því staðið yfir í tæpar tvær klukku­stundir. Kostnaðurinn vegna út­kallsins og leitarinnar segir Oddur að geti verið hár. Ljóst er þó að hann hefði verið mun hærri ef þyrlan hefði verið kölluð út.